Dæmdur fyrir að afstýra ekki eldsvoða

Húsið að Grettisgötu 87 brennur.
Húsið að Grettisgötu 87 brennur. mbl.is/Golli

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í fjögurra mánaða fangelsi að frádreginni gæsluvarðhaldsvist fyrir að hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi hafi staðið til að vara við eða afstýra eldsvoða sem bróðir hans hafði valdið eins og segir í dómnum.

Málið snýst um eldsvoða í iðnaðarhúsnæði að Grettisgötu 87 í Reykjavík í mars á síðasta ári. Maðurinn er dæmdur fyrir að hafa hvorki gert tilraunir til að slökkva eldinn né tilkynna hann til lögreglu eða slökkviliðs. Þá hafi hann hvorki kannaði hvort einhver væri inni í húsnæðinu þegar hann yfirgaf vettvang ásamt bróður sínum né hafið virkar björgunaraðgerðir til björgunar verðmætum eða mannslífum.

Frétt mbl.is: Brennuvargurinn talinn ósakhæfur

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn í sex mánaða fangelsi að frádregnu gæsluvarðhaldi en sýknað bróður hans af kröfum ákæruvaldsins. Bróðirinn var dæmdur til vistunar á viðeigandi stofnun en hann var metinn ósakhæfur. 

Hætiréttur sýknaði manninn hins vegar af einkaréttarkröfu Tryggingamiðstöðvarinnar en héraðsdómur hafði dæmt hann til þess að greiða félaginu tæplega 12,6 milljónir krónur ásamt vöxtum auk 200 þúsund króna í málskostnað.

Maðurinn var einnig dæmdur til þess að greiða samtals rúmlega 3,2 milljónir króna í málskostnað fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert