Deilan komin út fyrir lagarammann?

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þingmenn eiga ekki að skipta sér af kjaradeilu nema það stefni í algera neyð,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is spurður út í stöðuna í kjaradeilu sjómanna sem verið hafa í verkfalli frá því í desember.

Vilhjálmur segir að það sé hins vegar spurning hvort kjaradeila sjómanna sé hugsanlega komin út fyrir þann ramma sem settur er í lögum séu sjómenn að fara fram á afskipti Alþingis af deilunni. Vísar hann þar til 17. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur í því sambandi.

Fram kemur í lagagreininni að óheimilt sé að fara í verkfall í vinnudeilu ef tilgangurinn er að „þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma,“ enda séu stjórnvöld ekki aðili að deilunni sem atvinnurekandi.

Fram hefur komið hjá deiluaðilum að samið hafi verið um öll mál í kjaradeilunni nema um mögulegan skattaafslátt af fæðispeningum sjómanna. Fyrir vikið má færa fyrir því rök að eina málið sem standi út af beinist ekki að útgerðarmönnum heldur stjórnvöldum.

Vilhjálmur segir að nógu erfitt hafi verið að taka á kjaradeilum sem hafi sett landið í algera neyð. En það væri eitthvað bogið við það þegar sjómenn gætu ekki samið svo árum og áratugum skipti. Þá væri eitthvað að. „Þeir verða bara að leysa sína deilu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert