Greiði ríkinu 83 milljóna króna sekt

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið sakfelldur í Hæstarétti fyrir meiri háttar skattsvik, með því að hafa sem eini stjórnarmaður einkahlutafélags látið hjá líða að skila virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á þeim skatti. 

Maðurinn var dæmdur til fangelsisvistar í eitt ár, en refsingin er skilorðsbundin til þriggja ára. Að auki var hann dæmdur til að greiða 83 milljóna króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna. Geri hann það ekki mun hann sæta fangelsi í eitt ár, að því er fram kemur í dómi réttarins.

Segir þar að tildrög málsins séu þau að með bréfi 8. mars 2013 vísaði ríkisskattstjóri til skattrannsóknarstjóra skattskilum tveggja félaga. Laut málið að því að annað þeirra hafði á árunum 2011 og 2012 gefið út reikninga á hendur hinu, en ríkisskattstjóri taldi allt benda til að þeir væru tilhæfulausir og eingöngu gefnir út til að mynda innskatt í uppgjöri á virðisaukaskatti. 

Rannsókn á skattskilum annars félagsins leiddi í ljós að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum þess á tilteknu tímabili, auk þess sem sölureikningar hefðu verið gefnir út í nafni þess á árunum 2011 og 2012 að því er virtist í þeim eina tilgangi að mynda innskatt hjá hinu félaginu.

Fjárhæð þessara reikninga nam samtals 204.680.530 krónum, en þar af var virðisaukaskattur að fjárhæð 41.588.475 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert