Varð ástfangin af Íslandi og settist að

Vetrarfegurð. Þessa mynd tók Maja af Hótel Geirlandi; þar leið …
Vetrarfegurð. Þessa mynd tók Maja af Hótel Geirlandi; þar leið henni vel þegar hún vann hjá Erlu og Gísla. Ljósmynd/Agnieszka Majka Srocka

Henni finnst gaman að takast á við ögrandi verkefni og gera eitthvað sem hún hefur ekki áður gert. Hún vílar ekki fyrir sér að skipuleggja alþjóðlegan dag á Klaustri, þar sem hún býr, og hún tekur líka ljósmyndir og málar með olíu. Og svo heldur hún sýningar á verkum sínum bæði hér heima og í Póllandi, þaðan sem hún kemur. Maja kann vel við sig á Klaustri, þar sem samkennd er meðal íbúa.

Ég kom fyrst til Íslands í þriggja mánaða sumarvinnu hjá Háskóla Íslands og sneri að því loknu aftur heim til Póllands, þar sem ég lauk námi við Háskólann í Rzeszów. Eftir það vissi ég ekki alveg hvað ég vildi taka mér fyrir hendur svo ég skellti mér aftur til Íslands til að ferðast um landið og taka myndir. Ég ætlaði að vera í þrjá mánuði en ég varð ástfangin af Íslandi, og nú eru liðin sex ár síðan ég kom hingað í heimsókn,“ segir Agnieszka Majka Srocka, eða Maja eins og hún er oftast kölluð á Íslandi.

„Ég bý núna á Klaustri og kann virkilega vel við mig. Hér er alveg sérstakt andrúmsloft, það er mikil samkennd meðal íbúanna og yndislegt að búa hérna. Þegar mér er boðið í kaffi hérna líður mér eins og ég sé heima hjá mér.“

Maja á sýningu sinni í Háskólanum í Rzeszów í Póllandi …
Maja á sýningu sinni í Háskólanum í Rzeszów í Póllandi nú í janúar.

Við höfum öll gott af því að kynnast hvert öðru

Maja hefur undanfarin þrjú ár starfað sem myndmenntakennari í grunnskólanum á Klaustri, enda er hún menntaður myndmenntakennari, og hún starfar líka í Arion banka. En hún hefur komið víða við; fyrstu þrjú árin á Íslandi var hún í hinum ólíkustu störfum.

„Fyrst starfaði ég á Hótel Geirlandi, síðan á elliheimilinu Klausturhólum og þar á eftir hjá Icelandair. Ég kenndi líka ljósmyndun í grunnskólanum sem val fyrir nemendur. Ég hef eignast marga vini hér á Klaustri í gegnum öll þessi störf, og að vinna í banka er einstaklega góð leið til að kynnast nánast öllum sem búa hér.“

Samfélagið á Klaustri er heppið að hafa Maju því hún er drífandi og framkvæmir hugmyndir sínar.

„Ég er að skipuleggja alþjóðlegan dag hér á Klaustri sem verður í sumar, og sveitarfélagið hefur þegar samþykkt að vera með mér í þessu, sem og Rauði krossinn. Ég vil gera þetta að árlegum viðburði, enda býr fólk af mörgum þjóðernum hérna, frá Litháen, Rúmeníu, Póllandi, Ítalíu, Portúgal, Frakklandi og fleiri löndum. Og Íslendingarnir sem búa hér eru mjög áhugasamir að fá að kynnast menningu okkar hinna, matargerðinni, sögunni og öðru sem við komum með okkur að heiman. Við höfum öll gott og gaman af því að koma saman og kynnast hvert öðru og því sem við höfum fram að færa.“

Maja er að safna að sér sjálfboðaliðum til að hjálpa við undirbúning alþjóðlega dagsins.

„Ég er í samtökum alþjóðlegra listamanna, NCLAVA, og ég er fulltrúi þessara samtaka á Íslandi, en samtökin ætla að prenta myndir frá hverju landi. Það verða líka myndir frá persónulegu lífi fólks í heimalandinu, til að sýna hvernig það er ólíkt því sem hér þekkist. Einnig munum við spila tónlist frá öllum þessum löndum, jafnvel munu einhver bönd koma fram. Þessi hátíð verður því fyrir augu, eyru og bragðlauka.“

Maja í bol frá NCLAVA, alþjóðlegum samtökum listamanna.
Maja í bol frá NCLAVA, alþjóðlegum samtökum listamanna.

Áhuginn beinst að náttúrunni eftir flutning til Íslands

Maja er menntaður grafískur hönnuður en í því námi lærði hún einnig ljósmyndun, og hún starfaði um tíma sem ljósmyndari heima í Póllandi, tók myndir í brúðkaupum og öðrum viðburðum sem og tískuljósmyndun. „Ég var alltaf mjög upptekin af því að taka ljósmyndir af fólki og andlitum, svokölluð portrett, en eftir að ég fluttist til Íslands hefur ljósmyndaáhuginn beinst að náttúrunni, landslaginu. Mér finnst gaman að takast á við nýja hluti og ögrandi,“ segir Maja, sem var með ljósmyndasýningu í Póllandi í sumar þar sem hún sýndi myndir sem hún hafði tekið á Íslandi.

„Þetta voru landslagsmyndir, flestar teknar á Suðurlandi og margar frá Klaustri og nánasta nágrenninu hér, svæðinu sem mér þykir vænst um.“ Maja hefur líka verið með ljósmyndasýningar hér á Íslandi, til dæmis sýnir hún um hverja páska á Klaustri, og á ólíkustu stöðum, í kirkju og á hótelum.

Á síðustu uppskeruhátíð á Klaustri, sem var í október, var hún með sýningu á olíumálverkum, en hún fæst einnig við málun.

„Um næstu páska verð ég með stóra málverkasýningu á Hótel Laka,“ segir Maja sem hefur í nægu að snúast, enda framtakssöm og orkumikil.

Maja kyssir íslenskan hest, hún mælir með kynnum við slíkar …
Maja kyssir íslenskan hest, hún mælir með kynnum við slíkar skepnur.
Maja við nokkrar ljósmynda sinna.
Maja við nokkrar ljósmynda sinna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert