Eftirlit með málaflokknum aukið

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Það er nauðsynlegt að skerpa á eftirliti með málefnum fatlaðs fólks. Það er í undirbúningi að auka eftirlit með allri þjónustunni í þessum málaflokki,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. 

Á þessu ári verður skipaður sérstakur hópur innan ráðuneytisins sem sinnir þessu eftirliti, svokölluð ráðuneytisstofnun, að sögn Þorsteins. Einnig verða skipaðir fleiri réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Til að unnt sé að gera það verði að auka fjárheimildir til þess á fjárlögum næsta árs. Alls eru starfandi níu réttargæslumenn samkvæmt landssamtökunum Þroskahjálp. Þorsteinn segir brýnt að fatlað fólk njóti þeirra réttinda sem því ber samkvæmt lögum og vísar til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Sveitarstjóri fundaði með ráðherra

Fram hefur komið að á sambýlinu á Blönduósi hefur nauðung verið beitt. Þar er unnið að úrbótum á þjónustunni eftir ráðleggingum sérfræðiteymis velferðarráðuneytisins. Í ljósi þessara frétta fór Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri Skagafjarðar, yfir stöðuna um málefni fatlaðra sem sveitarfélagið er með á sinni könnu á fundi með félags- og jafnréttismálaráðherra í morgun

Kostnaður sveitarfélagsins vegna þjónustunnar var ræddur á fundinum. Sveitarfélagið hefur greitt með þjónustunni frá árinu 2013 og gert er ráð fyrir að á ár­inu 2017 vanti um 75 millj­ón­ir króna miðað við óbreytta þjón­ustu. 

„Við munum skoða það. Við erum alltaf tilbúin að hlusta,“ segir Þorsteinn aðspurður hvort ríkið muni koma til móts við kröfur sveitarfélagsins um að ríkið taki meiri þátt í kostnaðinum. Í þessu samhengi bendir Þorsteinn á að nýverið hafi sveitarfélögin og ríkið farið yfir málefni fatlaðs fólks í heild til að bæta úr fjármögnun málaflokksins. 

Aðspurður hvort fjármagn verði aukið til sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk, segir Þorsteinn það vera eitt af því sem hann muni skoða hvort unnt sé að styrkja. „Vinna sérfræðiteymisins er mjög mikilvæg fyrir þennan málaflokk,“ segir Þorsteinn. Formaður sérfræðiteymisins sagði ótækt að ekki væri meira fjármagni varið í vinnu teymisins því biðlistinn væri of langur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert