Ekki endilega sami fiskur á ferð

Kvíar sem regnbogasilungur er ræktaður í í dag eru að …
Kvíar sem regnbogasilungur er ræktaður í í dag eru að verða úreltar. Fyrirtæki hallast nú frekar að laxeldi. mbl.is/Rax

Ekki er enn hægt að slá því föstu að regnbogasilungur sem mögulega slapp út um gat á eldiskví í Dýrafirði, sé sá hinn sami og fannst í ám víða um land síðasta sumar. „Það er ekkert víst að þessi mál tengist,“ segir Soffía Magnúsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun. „Miðað við þau gögn sem við erum með núna höfum við ekki enn dregið þá ályktun.“

Í tilkynningu sem fyrirtækið Arctic Sea Farm í Dýrafirði sendi frá sér í gær kom fram að gat hefði fundist á einni kvínni og að með upp­götv­un­inni kunni að hafa fund­ist meg­in­skýr­ing­in á „mögu­legri slysaslepp­ingu regn­bogasil­ungs“ sem fjallað var um síðastliðið haust.

Soffía segir þó að stærð fisksins sem nú er verið að slátra úr kvíum fyrirtækisins stemmi mögulega ekki við stærð fisksins sem fannst í ánum í sumar. Hins vegar eigi enn eftir að afla frekari gagna og rannsaka málið betur.

Matvælastofnun hefur eftirlit með búnaði og sjúkdómum í fiskeldi hér á landi. Eftirlitsmaður frá stofnuninni mun á morgun fara á vettvang og skoða aðstæður hjá Arctic Sea Farm. Í kjölfar þeirrar heimsóknar verða næstu skref Matvælastofnunar ákveðin.

Eftirlit með búnaði í fiskeldi var áður hjá Fiskistofu en hefur frá því í byrjun árs 2015 verið á ábyrgð MAST. Soffía segir að eftirlitsmaður frá MAST heimsæki sjókvíaeldisstöðvar að minnsta kosti einu sinni á ári og oftar ef þess þurfi. Í þeim eftirlitsferðum sé farið yfir ástand búnaðar, skráningar í gæðahandbók, þjálfun starfsmanna, viðbragðsáætlanir og fleira.

MAST hefur hins vegar ekki það hlutverk að skoða kvíarnar. „Við erum ekki með neðansjávareftirlit,“ segir Soffía en bendir á að samkvæmt reglugerð eigi fyrirtækin að skoða kvíarnar sínar á 90 daga fresti, annaðhvort með myndavélum eða köfun. „Sem þeir gera og [Arctic Sea Farm] var nýbúið að gera það, í síðasta mánuði skilst mér.“

Arctic Sea Farm er nú að meta umfang mögulegrar slysasleppingar úr götóttu kvínni. Þegar slátrun úr henni lýkur verður þó fyrst hægt að staðfesta umfangið.

Um 100 tilkynningar um regnbogasilung í íslenskum ám bárust í …
Um 100 tilkynningar um regnbogasilung í íslenskum ám bárust í fyrra. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Rangt að eftirlitið sé ekkert

Í haust sagði Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, að regn­bogasil­ung­ur hefði „veiðst í ann­arri hverri á lands­ins í sum­ar og haust.“ Taldi hann það væntanlega eldisfisk sem sloppið hefði úr sjókvíum við Ísland. Hátt í hundrað tilkynningar um regnbogasilung í íslenskum ám bárust NASF, Vernd­ar­sjóði virkra laxa­stofna, í fyrra.

Orri Vigfússon, formaður NASF, sagði í samtali við mbl.is í gær að svo virtist sem MAST hefði „ekki hafa nokk­urt eft­ir­lit eft­ir þessu. Við höf­um gagn­rýnt það mjög mikið. Þetta sýn­ir vinnu­brögð þeirra“.

Soffía segir þetta einfaldlega rangt. „Við förum í allar stöðvarnar á hverju ári og samstarf eftirlitsaðila og rekstraraðila er mjög jákvætt. Það er mjög reglulegt eftirlit.“

Kvíarnar að verða úreltar

Hún bendir á að regnbogasilungur sé alinn í búnaði (kvíum) sem er nú „á útleið,“ eins og hún orðar það. „Kröfurnar í fiskeldi núna eru margfalt meiri. Búnaðurinn á að vera vottaður samkvæmt NS-staðli sem er með strangari stöðlum sem fyrirfinnast. Allur lax hér við land er í þannig kvíum í dag. En regnbogasilungurinn, bæði þessi í Dýrafirði og annars staðar, er í eldri kvíum sem eru að úreldast.“

Hún segir að öll ný leyfi til fiskeldis geri þær kröfur að búnaðurinn sé NS-vottaður. Þá sé tilhneigingin sú að fyrirtæki eru að hætta eldi regnbogasilungs og skipta yfir í laxeldi.

Fimm fyrirtæki rækta regnbogasilung í sjókvíum við Ísland í dag. 

Geldur og sjúkdómalaus

Soffía segir að Matvælastofnun sé nú að skoða hvort breyta þurfi eftirliti með fiskeldi. „Við þurfum að setjast yfir þetta og meta stöðuna. Við þurfum að sjá hvað nákvæmlega gerðist, hvernig hefði mátt fyrirbyggja þetta, hvort gatið sé síðan í sumar eða nýtt. Á þessari stundu vitum við það ekki.“

Hún segir að vissulega sé slysaslepping alltaf grafalvarlegt mál en bendir á að regnbogasilungur sem ræktaður er í Dýrafirði sé geldfiskur og sjúkdómalaus. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert