Ekki lífsstíll, heldur atvinna

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir viðvarandi skort á hjúkrunarfræðingum mikið áhyggjuefni.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir viðvarandi skort á hjúkrunarfræðingum mikið áhyggjuefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru alltaf launamálin sem liggja mest á félagsmönnum,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um hvaða skref sé mikilvægast að taka til að bæta ástandið en mikill skortur er á starfandi hjúkrunarfræðingum á Íslandi.

Í skýrslu frá félaginu kemur fram að alls vanti um 290 hjúkrunarfræðinga í um 225 fjármögnuð stöðugildi hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum á Íslandi. Samkvæmt áætlaðri þörf vantar þó alls 523 hjúkrunarfræðinga til starfa.

Guðbjörg segir launamálin mikilvægust til að bæta núverandi ástand en í dag starfa um þúsund hjúkrunarfræðingar við annað en hjúkrun. Það er um fjórðungur af öllum hjúkrunarfræðingum á landinu en rúmlega 3.100 hjúkrunarfræðingar starfa við hjúkrun í dag.

15% brottfall á síðustu fimm árum

Að sögn Guðbjargar eru um 85% þeirra sem útskrifast hafa úr hjúkrunarfræði á síðustu fimm árum starfandi við hjúkrun en aðeins 72% þeirra sem útskrifuðust árið 2012 starfa í dag sem slíkir.

„Þetta er annað sem við erum að reyna að benda fólki á, það er að yngri hjúkrunarfræðingar horfa ekki á starfið sem lífsstíl heldur er þetta atvinna og fólk setur fjölskyldulíf og frítíma í forgang.“

Guðbjörg Pálsdóttir afhenti Óttari Proppé í gær skýrslu Félags íslenskra …
Guðbjörg Pálsdóttir afhenti Óttari Proppé í gær skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga. Mynd/Velferðarráðuneytið

Guðbjörg segir eldri kynslóðir hjúkrunarfræðinga hafa haldið mikilli hollustu við starfið og í raun hafi það verið ákveðinn lífsstíll að starfa við hjúkrun. Yngri kynslóðir horfi frekar á hjúkrun sem atvinnu og velji því að starfa við annað, jafnvel eftir nám.

Sækja í önnur störf

„Í samtölunum mínum við hjúkrunarfræðinga um hvernig standi á því að þeir séu ekki að vinna við hjúkrun í dag segja þeir: „Ég fæ betri laun fyrir betri vinnutíma og mun meiri tíma með fjölskyldunni [í öðru starfi].“

Auk launamála spila álag og vinnuumhverfi stórt hlutverk í ákvörðunum hjúkrunarfræðinga um að starfa við hjúkrun en Guðbjörg segir þó að ekki sé hægt að skilja annað frá hinu.

„Þetta helst í hendur. […] Eftir fjögurra ára háskólanám hafa [hjúkrunarfræðingar] ekki áhuga á að vinna undir þessu mikla álagi og í þessu ófullkomna vinnuumhverfi og þiggja fyrir það 360 þúsund krónur í dagvinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert