Fékk húfu gegn kynbundnu ofbeldi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fær húfuna afhenta af Ingu Dóru Pétursdóttur, …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fær húfuna afhenta af Ingu Dóru Pétursdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. mbl.is/Hjörtur

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar settu upp barmmerki á ríkisstjórnarfundi í dag í tilefni af þátttöku þeirra í jafnréttisátaki UN Women HeForShe og karlkyns ráðherrar settu enn fremur upp sérstök bindi merkt átakinu. Framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, Inga Dóra Pétursdóttir, afhenti Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra af því tilefni húfu sem framleidd hefur verið á vegum UN Women gegn ofbeldi sem konur og stúlkur þurfa að þola á almenningssvæðum í heiminum.

Eins og mbl.is hefur greint frá tók Bjarni ákvörðun um að verða við beiðni um að vera einn af tíu þjóðarleiðtogum í forsvari fyrir átakið HeForShe sem miðar að því að fá karlmenn um allan heim til þess að taka þátt í baráttunni fyrir jafnrétti. Um er að ræða 10 þjóðarleiðtoga, 10 forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja og 10 háskólarektora.

Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar hafa gert slíkt hið sama frá árinu 2015 að því er segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Fyrst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og síðan Sigurður Ingi Jóhannsson þegar hann tók við embættinu fyrir tæpu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert