Líklegt að lóan komi fyrr í ár

Í fyrra kom lóan hingað 26. mars.
Í fyrra kom lóan hingað 26. mars. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur telur það vel líklegt að lóan komi fyrr til Íslands í ár en venjan er vegna hlýnandi loftslags.

„Það voru lóur hérna fram að áramótum, þannig að það er alveg eins líklegt. Fuglar eru farnir að koma mun fyrr en þeir gerðu. Þessar loftslagsbreytingar eru alls staðar að koma fram í lífríkinu, því miður,“ segir Jóhann Óli.

300 lóur á Seltjarnarnesi fyrir jól

Hann bendir á að hátt í 300 lóur hafi verið á Seltjarnarnesi fram undir síðustu jól, sem sé mjög óvenjulegt því venjulega er hægt að telja þær á fingrum annarrar handar. Þær hafi síðan horfið á braut þegar kuldakafli kom.

Lóan kom til landsins 26. mars í fyrra og segir Jóhann það fara eftir því hversu næmar lóurnar eru hvort þær komi fyrr hingað í ár. „Þetta er enginn vetur. Ef veðráttan verður svona áfram hættir hún að fara því hún fer að geta lifað hérna yfir veturinn.“

mbl.is barst ábending um að tjaldur hefði mögulega sést í Elliðaárvogi. Það kemur Jóhanni Óla ekki á óvart því tjaldar séu hér allan veturinn, nokkur þúsund talsins. Hann bætir við að þeim fari fjölgandi og mest hafi sést til þeirra á svæðinu frá Suðurnesjum til Snæfellsness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert