„Öll störf eru kvennastörf“

Guðrún Svava er nemandi í bifvélavirkjun en á Íslandi hafa …
Guðrún Svava er nemandi í bifvélavirkjun en á Íslandi hafa 2.258 einstaklingar lokið sveinsprófi í bifvélavirkjun, þar af 15 konur. Mynd/Kvennastarf

„Öll störf eru kvennastörf,“ eru einkunnarorð átaksins #kvennastarf sem hófst í vikunni. Margir hafa eflaust tekið eftir myllumerkinu á samfélagsmiðlum en um er að ræða átak og kynningarherferð á vegum Samtaka iðnaðarins og Tækniskólans, í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á Íslandi. Markmið átaksins er að hvetja ungar stúlkur og konur til að skrá sig í nám í þessum svokölluðu „karllægu greinum“.

 „Kveikjan er kannski fyrst og fremst svona sameiginlegt markmið allra iðn- og verkmenntaskólanna og Samtaka iðnaðarins um að fá fleiri grunnskólanemendur til þess að skrá sig í iðn- og tækninám,“ segir Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar Tækniskólans, og einn talsmanna átaksins.

Helga Sif er nemandi á rennismíðabraut en frá upphafi hafa …
Helga Sif er nemandi á rennismíðabraut en frá upphafi hafa aðeins 10 konur lokið sveinsprófi í faginu. Mynd/Kvennastörf

„Heitt málefni“

Átakið #kvennastarf hefur farið vel af stað og segir Ólafur Sveinn viðbrögðin afar jákvæð.

„Við höfum fengið ótrúlega jákvæð og góð viðbrögð. Facebook-síðan var sett í loftið á mánudaginn og við erum komin með tæplega 3.500 „læk.“ Þetta er heitt málefni þannig séð en nánast allir eru sammála um að þetta er þörf umræða.“

Á vefsíðu átaksins, www.kvennastarf.is, má meðal annars sjá samantekt á kynjahlutföllum meðal þeirra sem lokið hafa sveinsprófi í hinum ýmsu iðngreinum en hluti af átakinu felst einnig í myndböndum þar sem talað er við konur í iðn- og verkgreinum og segir Ólafur Sveinn að í þeim sé ýmislegt áhugavert og fróðlegt að finna.

„Myndböndin eiga það öll sameiginlegt að segja sögu fyrstu konunnar sem menntaði sig í viðkomandi grein í bland við viðtöl við stelpur sem eru að læra í dag. Það eru stórar og litlar sögur á bak við ákvarðanir þessara kvenna.“

Andrea T. og Birna Borg eru nemendur á atvinnuflugmannsbraut. „Um …
Andrea T. og Birna Borg eru nemendur á atvinnuflugmannsbraut. „Um það bil 110.000 flugmenn eru starfandi í heiminum í dag og samkvæmt nýjustu könnunum eru um 5000 þeirra konur og 1500 flugstjórar,“ segir á vefsíðu átaksins. Mynd/Kvennastörf

Í fyrsta myndbandinu, sem frumsýnt var á þriðjudaginn, er fjallað um kvenkyns pípara en það var ekki fyrr en árið 1990 sem fyrsta konan lauk sveinsprófi í pípulagningu. „Aðeins fjórar konur í sögu iðnmenntunnar hafa útskrifast sem píparar. Það eru líka svolítið sláandi tölur,“ segir Ólafur Sveinn en alls hafa 1.159 manns lokið sveinsprófi í greininni.

Annað myndbandið segir frá konum í matreiðslu en í því þriðja er sagt frá konum í flugi. Í dag eru 807 flugmenn og flugstjórar starfandi hjá helstu flugfyrirtækjum á Íslandi en þar af eru aðeins 57 konur. Þriðja myndbandið má sjá hér að neðan en fyrri myndbönd herferðarinnar má finna á Facebook-síðu átaksins.

84% sveinsprófa til karlmanna

„Þegar við hjá Tækniskólanum fórum að hugsa um eitthvert átak í þessum efnum fórum við að rýna aðeins í tölurnar og þá sló þetta okkur dálítið,“ segir Ólafur Sveinn en 84% allra sveinsprófa á Íslandi hafa farið til karlamanna.

„Þetta eru svolítið sláandi tölur en kannski skiljanlegar í ljósi þess að þetta er auðvitað yfir mjög langan tíma, við höfum verið með þessa menntun í yfir 100 ár.“

Aðstandendum herferðarinnar fannst því kjörið að efna til átaks sem hefði það að markmiði að kynna iðn- og verkgreinar fyrir ungum stúlkum sem munu velja sér framhaldsskóla á næstu árum.

„Það getum við kannski einna best með því að varpa ljósi á fáar en virkilega flottar fyrirmyndir í þessum karllægu greinum. Þessi hugmynd að lítilli kynningarherferð varð að þessu stóra átaki.“

Ynja Blær sat fyrir á myndatöku fyrir átakið því engin …
Ynja Blær sat fyrir á myndatöku fyrir átakið því engin stelpa var við nám í pípulögnum þegar myndin var tekin. Aðeins 4 konur hafa frá upphafi lokið sveinsprófi í faginu en 1.155 karlmenn. Mynd/Kvennastarf

Að sögn Ólafs Sveins er markmið átaksins því bæði að kynna iðn- og verkgreinar fyrir ungum stúlkum og að hvetja ungt fólk almennt til að skrá sig í iðn- og verknám.

„Efling kvenna hefur líka verið mikið í umræðunni og nýlegar rannsóknir hafa sýnt að fólki líður almennt betur á vinnustöðum þar sem er jafnt hlutfall kvenna og karla. Það er ekki endilega þannig að stelpurnar sem eru að sækja um í þessum störfum mæti einhverju mótlæti eða slíku heldur er mjög vel tekið á móti þeim. Þær eiga oft mjög auðvelt með að fá vinnu því þetta er eitthvað sem fyrirtækin þyrstir í,“ segir Ólafur Sveinn og hann segir það sama uppi á teningnum varðandi stráka í kvenlægum greinum.

„Strákar sem læra til dæmis hárgreiðslu eiga oft auðvelt með að fá vinnu vegna þess að mörg fyrirtæki vilja hafa þessa fjölbreytni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert