Rúmlega 500 hjúkrunarfræðinga vantar

Guðbjörg Pálsdóttir afhenti Óttari Proppé skýrsluna á fundi í gær.
Guðbjörg Pálsdóttir afhenti Óttari Proppé skýrsluna á fundi í gær. Mynd/Velferðarráðuneytið

Mikill skortur er á starfandi hjúkrunarfræðingum á Íslandi en samkvæmt nýrri skýrslu frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) vantar rúmlega 500 hjúkrunarfræðinga til starfa til að mæta áætlaðri þörf. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga afhenti Óttari Proppé heilbrigðisráðherra skýrsluna í gær, en félagið leggur til að brugðist verði við skortinum, meðal annars með því að hækka laun hjúkrunarfræðinga til samræmis við aðra opinbera starfsmenn.

Á sama tíma og um þúsund hjúkrunarfræðingar á Íslandi starfa við annað en hjúkrun vantar alls 290 hjúkrunarfræðinga til starfa til að manna fjármögnuð stöðugildi hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum á landinu. Þá vantar alls 523 til starfa samkvæmt áætlaðri þörf á hjúkrunarfræðingum.

Samkvæmt greiningu á vinnumarkaði hjúkrunarfræðinga eru aðeins 69% menntaðra hjúkrunarfræðinga félagsmenn í FÍH. Brottfall nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga er þá að meðaltali 15% á síðustu fimm árum.

Alls vantar 290 hjúkrunarfræðingar til starfa í um 225 stöðugildi …
Alls vantar 290 hjúkrunarfræðingar til starfa í um 225 stöðugildi en meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum er 69%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslunni kemur einnig fram að munur á launum hjúkrunarfræðinga og annarra stétta með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi hjá hinu opinbera sé um 20%.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður FÍH, afhenti Óttari Proppé heilbrigðisráðherra skýrsluna í gær, en í henni má einnig finna tillögur félagsins til að bregðast við mönnunarvandanum.

FÍH leggur til að meira fé verði veitt til menntunar hjúkrunarfræðinga og að laun þeirra verði hækkuð til samræmis við aðra opinbera starfsmenn. Þá segir í skýrslunni að leita þurfi leiða til að draga úr vinnuálagi og bæta starfsumhverfi til að sporna gegn skertu starfshlutfalli hjúkrunarfræðinga, en starfshlutfallið er að meðaltali 71%.

Áhugi á samstarfi

Á fundi með Guðbjörgu, Gunnari Helgasyni, sviðsstjóra kjara- og réttindasviðs, og Aðalbjörgu Finnbogadóttur, sviðsstjóra fagsviðs, í gær sagði Óttarr áríðandi að finna árangursríkar lausnir til að styrkja grundvöll heilbrigðisstétta, þar sem mönnun er vandamál. Þá lýsti hann yfir áhuga til samstarfs og sagðist reiðubúinn að ræða við FÍH og heilbrigðisstofnanir um mögulegar lausnir.

Skýrslan: Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert