Tekur tíma að koma á rútínu í fangelsinu

Á Hólmsheiði eru nokkur aðskilin rými þar sem fangar geta …
Á Hólmsheiði eru nokkur aðskilin rými þar sem fangar geta bæði umgengist hver annan auk þess að geta fengið meira næði. mbl.is/Ófeigur

Aðalheiður Ámundadóttir, formaður Afstöðu, félags fanga, birti nokkuð harðorða gagnrýni á nýtt fangelsi á Hólmsheiði á Facebook-síðu sinni. Eftir nokkurra klukkustunda dvöl sína þar sagði hún svo virðast sem engin dagskrá væri fyrir fanga. „Það er ekkert dagsplan og eiginlega ekkert við að vera nema sjónvarp. Einn AA-fundur á viku fyrir konur. Verulega takmarkaður tími til líkamsræktar (þrátt fyrir að fín aðstaða til líkamsræktrar sé í húsinu, virðist ræktin standa auð og aðstaðan læst fyrir utan takmarkaða tíma sem opið er). Engin almenn hreyfing, engin útivera. Engin vinna, ekkert meðferðarstarf, ekkert tómstundastarf, ekkert uppbyggingarstarf,“ skrifar Aðalheiður m.a. og bætir við: „Þarna er þetta fína hús með allskonar fínni aðstöðu. Fína aðstaðan virðist hins vegar ekkert vera notuð og allir bara í reiðileysi og þunglyndi,“ segir hún ennfremur í stuttum pistli sínum.

Um helmingur í vinnu

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að alltaf verði erfitt og niðurdrepandi að vera sviptur frelsi sínu og lokaður í fangelsi. „Við sem með fangelsismál förum eigum að gera okkar besta til að draga úr neikvæðum afleiðingum innilokunar. Það er markmið okkar á Hólmsheiði eins og í öðrum fangelsum,“ segir Páll. Hann bætir því við að fangar hafi einungis verið á Hólmsheiði í þrjá mánuði og það taki tíma að skapa rútínu. „Það er verið að skipuleggja skólastarf þarna til framtíðar. Eins er ávallt leitað að varanlegri vinnu fyrir fangana,“ segir Páll.

Á Hólmsheiði dvelja eingöngu konur til lengri tíma. Að öðru leyti er þetta móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Þar eru nú 25 fangar en að hámarki er pláss fyrir 56 fanga.

Þrátt fyrir að enn sé unnið að því að koma hlutunum í fastari skorður segir Páll að af þeim 25 föngum sem dvelja í fangelsinu eins og sakir standa séu 12-15 í vinnu og segir hann að aðgengi að vinnu hafi verið gott fyrstu mánuðina. Unnið er á virkum dögum.

Þá er skólastarf farið af stað og sjö fangar skráðu sig í nám á þessari önn. Unnið er að framtíðarskipulagi fyrir nám fanga. „Fangaverðirnir leggja sig fram um að skapa öryggi og að láta sér annt um líðan fanganna. Þetta er meginhlutverk þeirra og þeir hafa mjög flókið hlutverk, bæði við að halda uppi reglu í fangelsinu og að aðstoða fangana ef svo ber undir,“ segir Páll.

Fangar aðskildir í útivist

Í fangelsinu er m.a. sérstök heimsóknaríbúð þar sem aðstandendur, t.d. börn fanga, geta dvalið í heimsóknum sínum. Í hverri álmu og á hverri deild er einnig eldunaraðstaða. Gert er ráð fyrir því að fangar sjái um sig að töluverðu leyti hvað varðar eldamennsku og þrif. Einnig er aðstaða fyrir fanga til að stunda nám auk aðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Í álmum fangelsins eru mismunandi fangadeildir. Þær eru aðskildar og hefur hver og ein sitt útivistarsvæði. Þannig hefur fangelsið á Hólmsheiði m.a. þá sérstöðu hér á landi að hægt er að hafa algjöran aðskilnað á milli fanganna. Páll segir þó að fangarnir séu ekki aðskildir innan deildar ef allt er eðlilegt, en fólk af ólíkum kynjum er þó aðskilið að næturlagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert