Vilja ekki vinna á Landspítalanum

Samkvæmt skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vantar rúmlega 500 hjúkrunarfræðinga til …
Samkvæmt skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vantar rúmlega 500 hjúkrunarfræðinga til starfa á Íslandi. mbl.is/Golli

Stór hluti útskriftarárgangs hjúkrunarnema frá Háskóla Íslands hefur tekið ákvörðun um að sækja ekki um starf á Landspítalanum ef laun hjúkrunarfræðinga við stofnunina haldast óbreytt. Þetta staðfestir Elín Björnsdóttir, hjúkrunarfræðinemi, í samtali við mbl.is en hún segir launamun hjúkrunarfræðinga í starfi hjá Landspítalanum eða Reykjavíkurborg sláandi.

„Þetta byrjaði í rauninni allt þegar við fengum fræðslu hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga þar sem þau kynntu félagið fyrir okkur. […] Þau voru að segja okkur frá kjaramálum og sýndu okkur þá launatöflu Landspítalans og upp frá því sköpuðust miklar umræður og við fengum í raun og veru bara svolítið sjokk,“ segir Elín.

Í kjölfar kynningarinnar fór hópurinn að skoða laun og kjör hjúkrunarfræðinga í öðrum störfum.

„Niðurstöðurnar voru sláandi. […] Við erum að fá 359 þúsund [í grunnlaun] eins og staðan er núna, það breytist svo 1. júní og þá hækkum við upp í 375 þúsund. Ef við berum svo saman byrjendalaun í grunnlaunum hjá Reykjavíkurborg eru þau 437 þúsund krónur. Það sem er í rauninni mest sláandi er að eftir eitt ár í starfi hjá Landspítalanum nærðu ekki einu sinni byrjendalaunum hjá Reykjavíkurborg.“

Að sögn Elínar telur útskriftarárgangurinn í Háskóla Íslands um 80 nemendur og 40-50 til viðbótar útskrifast úr hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Spurð hvort um sé að ræða sameiginlega ákvörðun um að sækja ekki um starf hjá Landspítalanum segir Elín að svo sé ekki.

„Þetta er bara umræða og hver og einn tekur ákvörðun fyrir sig. Við erum bara að benda á þetta en það er mjög stór hópur sem er búinn að taka ákvörðun um að vera ekki [á Landspítalanum] ef að launin eru svona.“

Elín Björnsdóttir hjúkrunarfræðinemi segir marga í útskriftarárganginum hafa tekið ákvörðun …
Elín Björnsdóttir hjúkrunarfræðinemi segir marga í útskriftarárganginum hafa tekið ákvörðun um að sækja ekki um starf við LSH. Mynd/Elín Björnsdóttir

Áttu fund með stjórnendum LSH

Elín segir þó að forsvarsmenn Landspítalans hafi sýnt athugasemdum útskriftarnemanna mikinn skilning en Elín og annar fulltrúi hópsins áttu fund með stjórnendum spítalans í gær.

„Þau tóku mjög vel á móti okkur og við áttum góðan fund. Þau eru í rauninni að gera sér grein fyrir þessu núna, þau voru ekki alveg meðvituð um þennan launamun. Þau ætla að gera eitthvað í sínum málum til að koma til móts við okkur. Þau eru alveg komin inn í þetta og skilja okkur vel þannig að núna er þetta í rauninni stopp hjá æðri völdum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert