Í vímu, vopnaður og óhlýðinn

  Tilkynnt var til lögreglunnar um slagsmál við hús í Hafnarfirði um ellefu í gærkvöldi.  Maður í annarlegu ástandi var handtekinn grunaður um vörslu fíkniefna, brot á vopnalögum og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. 

Öryggisverðir á athafnasvæði Eimskips við Sundahöfn höfðu samband við lögreglu um hálfeitt í nótt en þeir höfðu orðið varir við mann sem átti ekki erindi inn á svæðið. Þegar lögregla kom á vettvang höfðu þeir handsamað manninn og er hann vistaður í fangageymslu grunaður um húsbrot.

Lögreglunni barst tilkynning um ölvaðan mann sem var að brjóta rúðu í húsi við Hverfisgötu um þrjú í nótt. Þegar lögregla kom á vettvang blæddi mjög úr hendi mannsins og var hann fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans. 

 Maður sem var í mjög annarlegu var handtekinn á Smiðjuvegi í Kópavogi á sjöunda tímanum í gær en hann var þar að skemma bíla. Maðurinn neitaði að gefa lögreglu upp nafn eða aðrar upplýsingar.  Hann var handtekinn og er vistaður í fangageymslu lögreglu þar til hægt verður að ræða við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert