Hulunni svipt af herra Darcy

Leikarinn Colin Firth sem Fitzwilliam Darcy, nýstiginn upp úr Pemberlay-vatni, …
Leikarinn Colin Firth sem Fitzwilliam Darcy, nýstiginn upp úr Pemberlay-vatni, í sjónvarpsþáttum BBC frá árinu 1995.

Sagnfræðingar í Bretlandi hafa dregið upp allt aðra mynd af herra Darcy í bókinni Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen en þær sem birst hafa í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum áratugum saman.

Einn helsti ástmögur heimsbókmenntanna, herra Darcy, var hvorki dökkur yfirlitum né fjallmyndarlegur eins og Laurence Olivier í fyrstu kvikmyndinni sem gerð var árið 1940 eftir hinni dramatísku skáldsögu Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen. Eða Colin Firth meira en hálfri öld síðar í sjónvarpsþáttum frá BBC. Síðan hafa sumir (lesist: konur) varla getað séð herra Darcy fyrir sér öðruvísi en sem Firth. Sérstaklega er mörgum minnisstætt þegar hann í einu atriðinu stingur sér í Pemberlay-vatn og stígur síðan upp úr í rennblautri skyrtunni. Reyndar er atburðarins í engu getið í bókinni.

„Ég held að hver einasta stúlka leiti að sínum Darcy,“ var haft eftir bresku leikkonunni Keira Knightley, sem lék Elizabeth Bennet á móti Matthew Macfadyen sem herra Darcy í bíómynd frá árinu 2005, einni af mörgum sem gerðar hafa verið eftir þessari ástarsögu allra tíma að margra mati.

Raunsæ mynd?

Ef marka má sagnfræðinga samtímans í Bretlandi sem nýlega voru fengnir til að draga upp raunsæja mynd af herra Darcy eins og hann hefði litið út – hefði hann verið til í alvörunni – var Fitzwilliam Darcy hennar Jane Austen ekkert líkur fyrrnefndum glæsimennum hvíta tjaldsins. Þvert á móti mun hann hafa verið mjósleginn og satt að segja hálf mélkisulegur útlits, a.m.k. á mælikvarða ríkjandi fegurðarstaðla, núna rúmlega tveimur öldum eftir að hann steig fram á sögusviðið. Þar sem Jane Austen gefur afar óljósa lýsingu á ytra atgervi herra Darcy og raunar flestra þeirra sem við sögu koma, höfðu sagnfræðingarnir ekki úr miklu að moða. Hávaxinn, myndarlegur og göfugmannlegur, eru nánast einu vísbendingar skáldkonunnar. Engu að síður drógu þeir sínar ályktanir með hliðsjón haldbærum lýsingum á glæsilegum aðalsmönnum, tísku og tíðarandanum í upphafi nítjándu aldar. Að því búnu fengu þeir listamanninn Nick Hardcastle til að teikna mynd af þessum helsta draumaprinsi bókmenntanna.

Þær sem enn leita að sínum Darcy mættu hafa í huga þá gullnu reglu að eigi skal manninn af útlitinu dæma og að hleypidómar kunna ekki góðri lukku að stýra. Sagnfræðingarnir gera því skóna að Darcy hafi þó verið hávaxinn miðað við karla í sinni tíð, um 180 cm, hafa þeir reiknað út. Hæðin sleppur alveg, en aðrar lýsingar þeirra eru ekkert sérstaklega tilkomumiklar. Þeir segja hann hafa verið með sporöskjulagað andlit, mjóa höku, lítinn munn og millisítt, púðrað hvítt hár. Þá rökstuddu fræðimennirnir þá skoðun sína að herra Darcy hefði verið grannur og siginaxla með því að þegar Jane Austen skáldaði hann, voru einungis verkamenn með vöðvastælta bringu og breiðar axlir.

„Hann [herra Darcy] er dularfyllsta og eftirsóknarverðasta aðalsöguhetja allra tíma,“ sagði prófessor við University College í London, sem fór fyrir útlitsrannsóknarhópnum. Fyrir framtakinu stóð breska sjónvarpsstöðin Drama Channel, sem í tilefni 200 ára dánardægurs Jane Austen, sem lést 18. júlí 1817, sýnir um þessar mundir valda sjónvarpsþætti sem gerðir hafa verið eftir bókum skáldkonunnar ástsælu.

Fyrirmynda leitað

Hvort rannsóknarteymið hafi gefið raunsanna mynd af herra Darcy skal ósagt látið. Fyrir tveimur árum greindi breska dagblaðið The Telegraph frá því að dr. Susan Law hefði leyst gátuna hvað varðar innblásturinn að persónu herra Darcy. Hún sagði hana byggða á John Parker, fyrsta jarlinum af Morley, sem kvæntur var vinkonu skáldkonunnar og lýst hefur verið sem „manni með sterka nærveru“. Law kvaðst hafa varið fimm árum í að fara í gegnum sendibréf, dagbækur og dagblöð til að sýna fram á sú væri raunin. Máli sínu til stuðnings benti hún á að Austen hefði dvalið á heimili jarlsins og konu hans í Saltram House í Plymouth, Devon þegar hún skrifaði Hroka og hleypidóma.

Aðrir sem nefndir hafa verið til sögunnar sem fyrirmynd herra Darcy eru Írinn Thomas Lefroy, sem Austen ku hafa átt í ástarsambandi við 1796, og dr. Samuel Blackall guðfræðinemi sem hún hitt í fríi í Cambridge. Þótt slíkar vangaveltur séu studdar alls konar mistrúverðugum rökum hafa þær trúlega litla þýðingu fyrir þorra kvenna. Fyrir þeim verður herra Darcy aldrei annar en Colin Firth. Í alvörunni.

Rómantík og háðsleg samfélagslýsing

Auk skáldsögunnar Hroki og hleypidómar (Pride and Prejudice) skrifaði Jane Austen (1775-1817) fimm fullgerð skáldverk; Sense and Sensibility, Mansfield Park, Emma, Northanger Abbey og Persuasion, og komu tvær síðastnefndu út eftir andlát hennar. Hroki og hleypidómar var önnur bók hennar og tvímælalaust sú frægasta.


Sagan hefur verið sögð hafa allt til að bera sem prýða má góða sögu; margbrotna persónusköpun, spennandi atburðarás, hárfína og oft háðslega samfélagslýsingu, ástir, rómantík, húmor og siðferðisboðskap. Bókin kom út á íslensku árið 1956 undir heitinu Ást og hleypidómar. Síðan í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur árið 1988 undir heitinu Hroki og hleypidómar.

„Ung, fögur, en peningalaus stúlka fær bónorð frá glæsilegum, forríkum, ungum manni, vísar honum stolt á bug vegna þess hve hann er hrokafullur og auðmýkjandi við hana en fer svo að iðrast . . . “ Þannig rakti Silja söguþráð þessarar sígildu sögu í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins sama ár.

Laurence Olivier túlkaði herra Darcy í fyrstu kvikmyndinni sem gerð …
Laurence Olivier túlkaði herra Darcy í fyrstu kvikmyndinni sem gerð var eftir sögunni árið 1940.
Herra Darcy eins og listamaðurinn Nick Hardcastle teiknaði hann samkvæmt …
Herra Darcy eins og listamaðurinn Nick Hardcastle teiknaði hann samkvæmt forskrift sagnfræðinganna. UKTV/Nick Hardcastle
Ung, fögur, en peningalaus stúlka fær bónorð frá glæsilegum, forríkum, …
Ung, fögur, en peningalaus stúlka fær bónorð frá glæsilegum, forríkum, ungum manni.
Colin Firth og Jennifer Ehle í sjónvarpi.
Colin Firth og Jennifer Ehle í sjónvarpi.
Matthew Macfady og Keira Knightley áratug síðar í bíómynd.
Matthew Macfady og Keira Knightley áratug síðar í bíómynd.
Thomas LeFroy
Thomas LeFroy
John Parker
John Parker
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert