Mikill munur á verði rauðra epla

Mestur verðmunur var í flokki ávaxta.
Mestur verðmunur var í flokki ávaxta. mbl.is/Hjörtur

Mestur verðmunur í nýrri verðkönnun ASÍ hjá matvöruverslunum reyndist 177%. Var það á kílóverði af rauðum eplum, en þau voru ódýrust í Bónus þar sem þau kostuðu 198 krónur á kíló á meðan sama magn kostaði 549 krónur í Iceland. Á heildina litið var verðmunurinn í könnuninni mestur í flokki ávaxta.

Þá var einnig talsverður munur á frosnum heilum kjúklingi eða 135% þegar skoðað var lægsta kílóverð í hverri verslun fyrir sig. Hæsta verðið var í Krónunni úti á Granda 935 kr./kg en lægst var verðið í Bónus Holtagörðum 398 kr./kg en meðalverðið var 681 kr./kg. Minnsti verðmunurinn í könnuninni var 11% á stórri dós af bláberjaskyri frá Skyr.is. Hæsta verð var 399 kr. í Iceland Engihjalla en lægsta verðið í Bónus Holtagörðum og í Krónunni Granda 359 kr. en meðalverðið var 373 krónur.

Bónus Holtagörðum átti til 56 af þeim 63 vörum sem voru kannaðar og var í 34 tilfellum með lægsta verðið. Iceland í Engihjalla átti mest úrval vöru, 61 af 63 vörum sem skoðaðar voru, en í 33 tilfellum var Iceland með hæsta vöruverðið í þessari könnun.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert