Styrkja fjarnám enn frekar

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst.
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst.

Alls voru 82 nemendur útskrifaðir frá Háskólanum á Bifröst í dag. Vilhjálmur Egilsson rektor segir að mikilvægt sé að skólinn styrki enn frekar stöðu sína á sviði fjarnáms og því sé nú verið að fara yfir þau tækifæri sem þurfi að grípa með uppfærslu á kerfum og endurnýjun á aðstöðu nemenda og tæknibúnaði í skólanum.

Frá útskrift Háskólans á Bifröst í dag.
Frá útskrift Háskólans á Bifröst í dag.

„Háskólinn á Bifröst er ótrúlega gott samfélag sem hefur mótandi áhrif á alla sem verða hluti af því. Skólinn nýtur þess að hafa nemendur sem vilja ná árangri og taka að sér leiðandi hlutverk í atvinnulífinu og samfélaginu. Skólinn nýtur líka kennaranna og annars starfsfólks sem hefur metnað til að skila góðu verki og skila skólanum sterkum áfram inn í framtíðina. Við stöndum í þakkarskuld við alla nemendur og starfsmenn sem hafa lagt sitt af mörkum í skólanum okkar. Allt þetta fólk er að vinna íslensku samfélagi mikið gagn,“ sagði Vilhjálmur í ræðu sinni.

Verðlaun og  útskriftarræður

Útskriftarverðlaun hlutu í grunnnámi Svanberg Halldórsson, viðskiptadeild, Edda Bára Árnadóttir, lagadeild, og Sigurður Kaiser, félagsvísindadeild. Útskriftarverðlaun hlutu í meistaranámi Sigurbjörg R Hjálmarsdóttir, viðskiptadeild, Þórunn Unnur Birgisdóttir, lagadeild, og Friðrik Árnason og Sigríður Valdimarsdóttir, félagsvísindadeild. Að auki fengu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri: Vera Dögg Höskuldsdóttir, viðskiptadeild, Þórarinn Halldór Óðinsson, lagadeild, og Pétur Steinn Pétursson, félagsvísindadeild.

Ræðumaður fyrir hönd viðskiptadeildar var Svanberg Halldórsson, fyrir hönd lagadeildar Edda Bára Árnadóttir og fyrir hönd félagsvísindadeildar Sif Guðmundsdóttir. Ræðumaður fyrir hönd meistaranema var Helga Margrét Friðriksdóttir, viðskiptadeild.

Karlakórinn Söngbræður sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Heimis Klemenzssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert