Við erum hætt að bíða

Jón Páll Halldórsson og Birta Björnsdóttir.
Jón Páll Halldórsson og Birta Björnsdóttir.

„Við vorum búin að hugsa þetta í mörg ár, langaði að prófa eitthvað nýtt og vorum með ævintýraþrá, að fara eitthvað, vissum bara ekki hvert. Sérstaklega þegar sólin hafði varla sést í marga mánuði í skammdeginu, þá spurðum við hvort annað hvað við værum eiginlega að gera hérna. Einn daginn ákváðum við bara að drífa í þessu og völdum Barcelona, einfaldlega vegna þess að okkur þótti hún svo falleg og byrjuðum á að búa í borginni sjálfri í eitt ár. Þá bauðst okkur að leigja hús hérna uppi í fjöllunum og að lokum festum við svo kaup á húsinu sem við búum í nú, í 10.000 manna samfélagi,“ segir Birta Björnsdóttir en hún og eiginmaður hennar, Jón Páll Halldórsson, búa í hálfgerðri sveit í nágrenni Barcelona og hafa búið á Spáni síðastliðin fimm ár.

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Heima á Íslandi hafði parið notið mikillar velgengni, hvort á sínu sviði þar sem Jón Páll starfaði sem einn vinsælasti tattúlistamaður landsins og Birta gerði það gott með fatamerki sínu Júníform. Ef þau voru ekki í vinnunni voru þau að breyta eða bæta íbúð sína í Miðstræti og sanka að sér framandi gæludýrum. Þau eru ekki hætt að breyta og gera upp heimili eða enn að safna í kringum sig dýrum; uglum, eðlum, páfagaukum, hundum og naggrísum. Þau gera það bara á suðlægari slóðum ásamt börnum sínum tveimur en í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins segja Birta og Jón Páll og talandi páfagaukurinn Paco þeirra frá síðustu árum í lífi sínu á Spáni. Paco taldi sig í raun réttri vera einn af viðmælendunum en blaðamaður hefur aldrei áður tekið viðtal þar sem páfagaukur hló að bröndurunum og fór að öskra „pabbi“ og „mamma“ þegar hann vildi fá athygli.

Ylfa og Stormur með nokkur af gæludýrum heimilisins.
Ylfa og Stormur með nokkur af gæludýrum heimilisins.

Í húsi sem þau festu nýlega kaup á eru þau með sína vinnustofuna hvort, þar sem Birta hannar föt, saumar og málar og Jón Páll er einkum að teikna þessa dagana. Teiknimyndasögubók hans og Þórhalls Arnórssonar, Vargöld, sem kom út fyrir jólin, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og er þetta fyrsta bókin í sex bóka bálki. Vargöld er fyrsta hreinræktaða myndasagan fyrir ungmenni og fullorðna til að hljóta tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en þrátt fyrir að flestir tengi Jón Pál við tattúlist er hann lærður í gamaldags teiknimyndagerð í Kanada. Jón Páll er önnum kafinn við að vinna þá næstu og húðflúrar einnig inni í Barcelona.

Heimili þeirra Birtu og Jóns Páls í nágrenni Barcelona er …
Heimili þeirra Birtu og Jóns Páls í nágrenni Barcelona er einbýlishús sem þau hafa verið að gera upp síðastliðið ár. Það er ekki óalgengt að hvutti endi úti í miðri sundlaug.

Birta hefur þá komið nýju fatamerki á koppinn eftir að hafa sagt skilið við Júníform fyrir nokkrum árum og heitir nýja merkið By Birta. Birta opnaði vefverslun sína með nýja fatamerkinu, bybirta.com, um svipað leyti og Vargöld fékk tilnefninguna. Þegar viðtalið er tekið hefur gengið það vel að í augnablikinu er allt uppselt svo þetta er að rúlla vel af stað. Birta segir tímann verða að leiða það í ljós hvað verði en hún sé að fara aðrar leiðir en áður. Hana langi til að gera fáar flíkur í einu, leggja mikla ást í þær og vera í persónulegri samskiptum við kúnnann. „Það muna einhverjir eftir mér og þekkja vöruna mína þannig að maður er heppinn að hafa það forskot,“ segir Birta.

Jón Páll á vinnustofu sinni.
Jón Páll á vinnustofu sinni.

Þessir óvenjulegu listrænu hæfileikar eru vöggugjafir þeirra beggja, Birtu og Jóns Páls, en Birta segir sig hafa langað lengi að spreyta sig af meiri krafti málaralistinni. Hún skellti sér í nám í Barcelona Academy of Art til að fá meiri innsýn í þann heim og tók einnig þátt í keppni á vegum eins virtasta listasafns Spánar, Meam-safnins í Barcelona, fyrir tveimur árum. Úr um 3.000 myndum voru 50 myndir valdar til að fara áfram í keppnina og var Birtu mynd þeirra á meðal, í 14. sæti.

Birta á vinnustofu sinni.
Birta á vinnustofu sinni.
„Persónulega finnst mér ég vinna betur hér úti. Ég finn ekki fyrir samkeppninni og mér finnst ég vera frjálsari í hönnun minni. Af ásettu ráði fylgist ég ekki mikið með hönnun á Íslandi, einfaldlega vegna þess að þá verð ég ekki fyrir áhrifum þaðan. Ég hins vegar fylgist vel með heimshönnun yfir höfuð og elska dagsferðirnar mínar inn í Barcelona-borg. Eftir eina slíka fyllist ég yfirleitt miklum innblæstri og kem endurnærð í sveitina til að búa til eitthvað fínt en eftir þetta mörg ár í faginu kemur innblásturinn oft lúmskt að manni. Oft fæ ég einhverja tilfinningu um það sem koma skal í tískustraumum komandi árs og hendi í nokkrar flíkur. Svo einhverju seinna fer ég að sjá þessa sömu hluti dúkka upp í blöðum og búðum. Það er ekki eins og ég sjái þessa hluti skýrt áður, heldur er eins og maður sjái hvert hlutirnir stefna,“ segir Birta. 
Uglan á vappi í vinnustofu Birtu en hún er því …
Uglan á vappi í vinnustofu Birtu en hún er því miður nýdáin. Þau ætla að fá sér nýja uglu bráðlega frá Suður-Spáni en varptíminn er í mars.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert