„Vonandi kemur vetur í vetur!“

Snjólítið hefur verið í Hlíðarfjalli við Akureyri í vetur, sem …
Snjólítið hefur verið í Hlíðarfjalli við Akureyri í vetur, sem víða annars staðar. Þar er þó nægur snjór á öllum hefðbundnum skíðaleiðum. Skapti Hallgrímsson

Skíðamenn Íslands hafa ekki átt sjö dagana sæla í vetur. Reyndar má segja að sums staðar hafi þeir einmitt ekki átt nema sjö sæla daga, eða þar um bil! Stjórnendur skíðasvæða liggja flestir á bæn í von um að loks fari að snjóa. Aðeins á Sauðárkróki er ástandið gott. Nægur snjór hefur verið í Tindastóli í vetur og opið flesta daga síðan í desember. Hópar hafa komið úr Reykjavík allar helgar frá áramótum til æfinga.

Á föstudaginn voru flestar skíðaleiðir opnar í Hlíðarfjalli við Akureyri. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður sagði þokkalega mikinn snjó á öllum skíðaleiðum.

Snjóframleiðslan sannar sig

Veturinn hefur hvorki verið fugl né fiskur. „Hinn 15. febrúar í fyrra hafði verið opið í 60 daga, á sama tíma 2015 í 41 dag; þá var góður snjór en þetta var lægðaveturinn mikli og mjög oft skítaveður. 15. febrúar núna hafði verið opið í 34 daga í Hlíðarfjalli.“

Guðmundur fagnar öllum snjó: „Í vikunni komu 15 millimetrar! Það skiptir máli. Við þurfum ekki stórhríð til að fylla upp í allt. En ef hér væri ekki snjóframleiðsla hefðum við líklega ekkert opnað í vetur.“

Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, hefur verið í bransanum síðan 1981. „Ég man ekki að ástandið hafi verið svona slæmt nánast um allt land á sama tíma. Við megum þakka frábærum troðaramönnum að staðan sé þó ekki verri en hún er hér í Bláfjöllum. Þeir hafa unnið daga og nætur við að sækja snjó í allar hvilftir til að setja í brekkurnar.“

Einar segir að ekki þurfi að snjóa mikið til að færið verði gott. „Þótt veðrið hafi ekki verið mjög slæmt niðri í byggð hefur verið rok og rigning hér uppi í fjöllunum síðustu daga, eiginlega rignt eldi og brennisteini.“

Ekkert hefur verið opið í Skálafelli í vetur vegna snjóleysis.

Á Dalvík kom gott „snjóskot“ í október og til stóð að opna skíðasvæðið en í mikilli tveggja daga hláku tók upp 70 cm af troðnum snjó.

Ótrúlegt, en satt.

„Hægt er að renna sér og við höfum haldið úti æfingum fyrir krakkana. Það verður þó sífellt erfiðara enda hefur verið hláka í þrjár vikur,“ sagði Snæþór Arnþórsson, formaður Skíðafélags Dalvíkur, fyrir helgi. Hann kveðst þó tiltölulega bjartsýnn. „Vonandi kemur vetur einhvern tíma í vetur!“ sagði Snæþór.

Ágætt færi hefur verið í Skarðsdal á Siglufirði síðan um áramót.  „Hér var opið meira og minna allan janúar og færið ljómandi en nú erum við aftur á byrjunarreit,“ segir Egill Rögnvaldsson forstöðumaður. „Um síðustu helgi var hávaðarok og mjög hlýtt. Staðan er því ekki góð en við erum að bíða eftir nýrri sendingu! Vonandi kemur hún fljótlega.“

Venjulega er svæðið opnað 1. desember en tæpum mánuði seinna að þessu sinni. „Mig vantar 3.000 gesti miðað við sama tíma í fyrra. Mars og apríl verða vonandi góðir.“

Marvin Ómarsson, framkvæmdastjóri Skíðamiðstöðvar Austurlands í Oddsskarði, segir töluvert þurfa að snjóa til að hægt verði að opna svæðið. „Hér hefur ekki verið frost í tvær vikur, ekki einu sinni næturfrost, og ég held að hitinn hafi verið 18 stig í vikunni. Ég er hættur að fylgjast með hitamælunum!“

Opið hefur verið 12 daga í vetur. „Oft hafa komið snjólausir kaflar, aðallega vegna ríkjandi norðanátta og úrkomuleysis, en það er heldur betur óvenjulegt að vera með yfirfulla læki og 14 stiga hita í febrúar. Annars er mesta úrkoman hér alltaf í mars svo við reynum að vera bjartsýn. Snjórinn kemur – eða það hlýtur að vera. Ég hugsaði reyndar alveg eins fyrir þremur vikum.“


Gott á göngusvæðinu
Opið var átta daga í janúar á alpagreinasvæði Ísfirðinga í Tungudal. „Þar af þurfti ég í tvo daga að keyra fólk upp í brekkur í snjóbíl,“ segir Hlynur Kristinsson forstöðumaður.

Aðstæður á göngusvæðinu á Seljalandsdal eru hins vegar allt aðrar. „Við leggjum mikla áherslu á okkar frábæra göngusvæði og aðstæður þar hafa verið mjög góðar. Iðkendahópurinn er stór og á góðum degi um helgar eru þar 300 til 350 manns í braut. Hingað hafa líka komið hópar annars staðar af landinu í æfingabúðir.“


Rólegt hefur verið í vetur á skíðasvæði Snæfellsnes, í Gráborg fyrir ofan Grundarfjörð. „Hér hefur ekki verið neinn snjór og því ekkert hægt að hafa opið í vetur,“ segir Rósa Guðmundsdóttir, formaður Skíðasvæðis Snæfellinga. „Þetta er mikið högg fyrir okkur. Við byrjuðum upp á nýtt í fyrra með því að endurnýja lyftuna og keyptum troðara í sumar! Heppnin er því ekki með okkur – en við verðum þeim mun tilbúnari næsta vetur.“

Ýmist of eða van 

„Hér hefur ekkert snjóað,“ segir Agnar Sverrisson, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Stafdal í Seyðisfirði. Opið var fyrir skíðamenn í um 20 daga í janúar þrátt fyrir lítinn snjó. „Við getum ekki opnað meira fyrr en kemur vetur. Ég auglýsi hér með eftir honum!“ segir Agnar.

Það er ýmist of eða van í Stafdal. „Ekki eru nema þrjú ár síðan við mokuðum upp átta og hálfs metra löng lyftumöstur. Þá snjóaði hér allt í kaf og 30 vinnustundir fóru í það á troðaranum að moka upp eina lyftu. Maður veit aldrei hvað maður fær í þessu lífi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert