Veglegir styrkir til geðheilbrigðismála

Forsvarsmenn PIETA taka við styrknum.
Forsvarsmenn PIETA taka við styrknum. Mynd/Gylfi Ingvarsson

Kiwanishreyfingin afhenti í gær Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) og PIETA-samtökunum veglega styrki í kjölfar 14. Landssöfnunar hreyfingarinnar, en söfnunin gengur undir nafninu „Lykill að lífi“. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú voru viðstödd athöfnina.

Það eru nú rúm 45 ár síðan Kiwanishreyfingin hóf landssöfnun til styrktar geðheilbrigðismálum með sölu K-lykilsins sem fer fram að meðaltali á 3ja ára fresti og var söfnunin á síðasta ári sú 14. og  er áætlað að uppfærð heildarupphæð Kiwanis til geðheilbrigðismála sé á milli 250 og 300 milljónir.

Forsvarsmenn BUGL við athöfnina.
Forsvarsmenn BUGL við athöfnina. Mynd/Gylfi Ingvarsson

Það var Eyjólfur Sigurðsson, Kiwanisfélagi og fyrrverandi heimsforseti KI, sem kom með hugmyndina sem þróaðist í landsverkefni Kiwanis með landssöfnun og ávallt undir kjörorðinu „Gleymum ekki geðsjúkum“.

Sem fyrr segir fengu í ár BUGL og PIETA afhenta styrki sem höfðu safnast hjá hreyfingunni. BUGL fékk 9,5 milljónir fyrir sérverkefni sem snýr að þjónustu við ungt fólk og PIETA fengu einnig 9,5 milljóna styrk, en um er að ræða nýstofnuð samtök til að sporna gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum.

Þrjú fyrirtæki fengu viðurkenningarskjöld fyrir að styrkja veglega við söfnunina.
Þrjú fyrirtæki fengu viðurkenningarskjöld fyrir að styrkja veglega við söfnunina. Mynd/Gylfi Ingvarsson

Hr. Guðni Th. Jóhannesson, verndari landssöfnunarinnar, og Haukur Sveinbjörnsson, umdæmisstjóri Kiwanishreyfingarinnar, afhentu  fulltrúum styrkþega  BUGL og Pieta áletraða gjafarplatta við afhöfnina.

Þá var við þetta tækifæri fulltrúum aðalstyrktaraðila söfnunarinnar, BYKO, Olís og Samskipum, afhentur viðkenningarskjöldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert