Þingmaður á ekki fyrir íbúð

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er af þessari hrunkynslóð og held að sú kynslóð hafi aðra sýn á gæði lífsins. Það að eiga húsnæði er ekki forgangsatriði en mörg okkar hafa séð hús tekin af okkur af bönkunum,“ sagði Píratinn Ásta Guðrún Helgadóttir í Silfrinu á Rúv í morgun.

Rætt var um grein í nýjasta blaði Stundarinnar en þar er til að mynda fjallað um hversu erfitt það er fyrir ungt fólk að eignast húsnæði og það rætt í samhengi við eignamyndun Gamma. „Mín kynslóð hefur dregist aftur úr,“ sagði Ásta og bætti við að augljóslega væri pottur brotinn.

Við erum að sjá fram á að eftir hrun var of lítið byggt. Við erum búin að fjölga í ferðaþjónustu og fleira og það er fleira fólk sem þarf húsnæði en framboð er. Þá hækkar verð og ég sé ekki fram á að geta keypt mér íbúð á næstunni,“ sagði þingmaðurinn.

Fleiri mennta sig en áður

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Ástu að það væri húsnæðisskortur hér á höfuðborgarsvæðinu og sagði stöðu ungs fólks lakari en annarra aldurshópa. Hann bar saman stöðu ungs fólks núna og árið 1990. „Hlutfallslega er þessi aldurshópur í dag með minni hluta af kaupmáttarkökunni,“ sagði Teitur en benti á ýmsar skýringar á því.

Fleiri fari í háskólanám og það hafi áhrif á möguleika fólks á því að afla sér tekna. Þróunin virðist vera sú að fólk sé lengur að koma undir sig fótunum en upp úr 1990. „Fólk byrjar með lægri hlutfallsleg laun en þegar það er komið yfir þrítugt hækka launin hraðar en áður,“ sagði Teitur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert