Varar við spilliforritum

Lögreglustöðin á Hverfisgötu.
Lögreglustöðin á Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Því miður hefur borið á því að fólk hér á landi, líkt og annars staðar í heiminum, er að lenda í klóm glæpamanna sem eru að ráðast gegn tölvum þeirra. Síðustu ár hefur þróun spilli- og gagnagíslatökuforrita tekið kipp í útbreiðslu og þróun.“

Þannig hefst færsla hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Facebook. Kemur þar fram að fólk þurfi alltaf að vera á varðbergi en sá flokkur spilliforrita sem er hvað alvarlegastur í dag eru gagnagíslaforrit. 

Það eru þau forrit sem dulkóða allar skrár á þeim tölvum sem þau komast inn á. Helsta ástæðan fyrir þessari öru þróun er að tölvuþrjótarnir geta grætt peninga á þennan hátt. Þeir krefjast lausnargjalds fyrir að gefa upp lykil til að afkóða allar skrárnar,“ segir í færslu lögreglunnar þar sem er brýnt fyrir fólki að hugsa um hvaða skrár séu mikilvægastar.

Best sé að eiga öryggisafrit af því sem fólk vill ekki missa og uppfæra það reglulega. Öryggisforrit séu margs konar og það geti verið sniðugt að eiga fleiri en einn möguleika. Fólk eigi ekki að bíða með að eiga afrit á öruggum stað. 

Þið vitið aldrei hvenær slíkt gæti hent ykkur og þá er það of seint. Slíkur búnaður og þjónusta er heldur ekki það dýr í dag að það sé fyrirstaða. Auk þess getur þetta komið sér mjög vel við önnur slæm atvik eins og þjófnað eða bruna. Þetta á heldur ekki bara við um myndir, þetta á líka við um mikilvæg verkefni,“ segir lögreglan og bendir á góðar leiðir til að forðast spilli- og gagnagíslatöku:

• Eigið örugg afrit
• Uppfærið vírusvarnir
• Ekki opna skrýtna pósta
• Ekki opna forrit sem koma allt í einu upp og þið vitið ekki hvað eru
• Verið meðvituð um hvað þið eruð að gera á netinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert