Bjóða upp verk eftir meistara

Myndin Reykjavíkurhöfn eftir Nínu Tryggvadóttur verður boðin upp í kvöld. …
Myndin Reykjavíkurhöfn eftir Nínu Tryggvadóttur verður boðin upp í kvöld. Verkið er metið á 2,5-3 milljónir króna en það var málað árið 1941. Mynd/Gallerí Fold

„Þetta er nokkuð fjölbreytt úrval en við erum reyndar með tvær svona áherslur sem eru óvenjulegar,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri Gallerís Foldar, um myndalistaruppboð kvöldsins.

Um er að ræða fyrsta uppboð Gallerís Foldar á árinu en 103 listaverk verða þar boðin upp. Uppboðið hefst klukkan 18 í kvöld en hægt er að sjá verkin á forsýningu í Galleríi Fold til klukkan 17 í dag.

Reykjavíkurmyndir

„Við erum með sérstakan flokk sem við höfum ekki verið með áður, sem er Reykjavík,“ segir Jóhann Ágúst en verkin í flokknum eru eftir hina ýmsu listamenn og sum þeirra frá síðari hluta 19. aldar.

„Það eru verk eftir Jón Helgason biskup, Benedikt Gröndal og danskan [listmálara] sem heitir Emanuel Larsen. Þetta eru svona elstu verkin og svo erum við líka með gullfallegar myndir, bæði eftir Ásgrím Jónsson af Laugarnesinu […] og mjög fína hafnarmynd frá Nínu Tryggvadóttur.“

Þá verður einnig lög áhersla á verk eftir Louisu Matthíasdóttur en 100 ár eru í dag liðin frá fæðingu hennar.

„Við ætlum aðeins að minnast á [aldarafmælið] í upphafi uppboðsins en við bjóðum upp tvö verk eftir hana. Eitt mjög stórt olíuverk og stóra pastelmynd.“

Verkið Bræður við lestur er eftir Louisu Matthíasdóttur en í …
Verkið Bræður við lestur er eftir Louisu Matthíasdóttur en í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu hennar. Louisu verður minnst við upphaf uppboðsins í kvöld. Mynd/Gallerí Fold

Þá verða fjölmörg önnur verk boðin upp í kvöld en að sögn Jóhanns Ágústs verður þar hægt að finna verk „í öllum verðflokkum og við allra hæfi“.

„Við erum með ýmis verk eftir þessa meistara. Það er geómetríumynd eftir Braga Ásgeirsson, […] örugglega hátt í tugur verka eftir Kjarval og mynd eftir Mugg [Guðmundur Thorsteinsson, innsk. blm.] […] Svo eiga Karólína Lárusdóttir, Tolli, Gunnella, Sigurbjörn Jónsson og fleiri starfandi listamenn einnig verk á uppboðinu.“

Jóhann Ágúst segir erfitt að segja til um hvernig uppboðið muni ganga en hann er þó bjartsýnn fyrir kvöldið.

„Maður rennir alltaf svolítið blint í sjóinn með hvernig ástandið er. Ég er nú svolítið bjartsýnn af því það er góður hagvöxtur á Íslandi og mikill uppgangur en svo er auðvitað búið að vera sjómannaverkfall í gangi og svoleiðis hlutir hafa alltaf áhrif líka.“

Uppboðið verður sem fyrr segir fjölbreytt og eru verkin metin á allt frá 25-30 þúsund til 4-5 milljóna.

„Reykjavíkurmyndirnar eru til dæmis alveg frá því að vera 50-100 þúsund til 2,5 milljónir. Myndin eftir Nínu er metin á 2-3 milljónir og svo erum við með eina Muggsmynd sem er nokkuð verðmæt þó að hún sé lítil.“

Hestagjá, Þingvellir er meðal tíu verka eftir Kjarval sem boðin …
Hestagjá, Þingvellir er meðal tíu verka eftir Kjarval sem boðin verða upp í kvöld. Verkið er metið á 700-800 þúsund krónur. Mynd/Gallerí Fold

Hvetur fólk til að koma á forsýningu

Verkin sem boðin verða upp í kvöld eru nú á forsýningu í Galleríi Fold en sýningin verður tekin niður klukkan 17 í dag. Jóhann Ágúst hvetur fólk til að nýta sér tækifærið til að skoða verkin, hvort sem það ætlar að kaupa eitthvað eða ekki.

„Þó svo að fólk sé ekki endilega að fara að kaupa sér mynd á uppboði þá er þetta ein af skemmtilegustu sýningunum sem koma því þarna eru verk sem eru kannski búin að vera inni á heimilum í áratugi. Þessi Nínumynd sem er máluð árið 1941 er til dæmis búin að vera inni á heimili síðan þá. Hún er hérna hjá okkur í viku og svo kaupir einhver hana og við vitum ekkert hvort hún komi fyrir sjónir almennings fyrr en eftir 50 ár.“

Hér má finna yfirlit yfir verkin á uppboði kvöldins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert