Brutust inn í blokkaríbúð í Breiðholti

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um innbrot í blokkaríbúð í Breiðholtinu um fjögurleytið í nótt. Ekki var búið í íbúðinni þar sem verið er að standsetja hana, en tveir menn sem voru í annarlegu ástandi voru handteknir á staðnum og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 

Um hálftíuleytið í gærkvöldi handtók lögreglan tvo ölvaða menn í Breiðholtinu, sem grunaðir voru um eignaspjöll, fyrir að brjóta rúður í skóla og vinna skemmdir á bifreið. Mennirnir fengu að gista í fangageymslu þar til unnt væri að yfirheyra þá.

Þá stöðvaði lögregla bifreið á Reykjanesbrautinni við Hnoðraholt um hálftvöleytið í nótt. Bifreiðin var með röng skráningarmerki, ótryggð, en ökumaðurinn sem var réttindalaus hafði áður verið sviptur ökuréttindum vegna ítrekaðra brota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert