Ekki vitað hversu margir fiskar sluppu

Eldiskvíar. Mynd úr safni.
Eldiskvíar. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn

Starfsmenn Matvælastofnunar (Mast) fóru um helgina í eftirlitsferð til Arctic sea farm í Dýrafirði eftir tilkynningar fyrirtækisins um gat á sjókví með regnbogasilungi í firðinum. Samkvæmt upplýsingum frá Mast er búið að loka gatinu, en ekki er vitað hversu margir fiskar hafa sloppið. Aftur á móti er ljóst að regnbogasilungurinn sem slapp í umhverfið síðastliðið sumar kom ekki úr þessari sjókví og eru þær slysasleppingar því áfram til rannsóknar hjá Mast.

Í tilkynningu frá Arctic sea farm í kjölfar þess að upp komst um málið kom fram að hér kynni að vera komin „meginskýringin á mögulegri slysasleppingu regnbogasilungs sem fjallað var um sl. haust þegar engin skýring fannst á því hvaðan regnbogasilungur væri upprunninn sem veiddist í ám á Vestfjörðum.“

Orri Vigfússon, formaður NASF (Verndarsjóðs virkra laxastofna) sagði meðal annars við mbl.is að eldisfiskur ætti ekkert heima í náttúrunni. Þá gagnrýndi hann einnig eftirlit Mast með þessum iðnaði. „Ef það kem­ur eitt­hvað upp hjá þess­um aðilum tek­ur marga mánuði að fá upp­lýs­ing­ar um það. Þetta er gjör­sam­lega stjórn­laus iðnaður og það þarf virki­lega að herða tök­in á öllu eft­ir­liti.“

Í kjölfar þess að upplýst var um gatið sendi Landssamband veiðifélaga frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að skýrt lögbrot hlyti að blasa við sem kallaði á frekari rannsókn.

Tengist ekki máli frá síðasta sumri

Með skoðun sinni núna segir Mast að útilokað sé að fiskurinn sem slapp út í fyrra sé úr sömu kví og núna hafi verið skoðuð.

Enn er óljóst hvenær og hvernig gatið myndaðist en líklegasta skýringin er sú að botnhringur og net hafi nuddast saman með þeim afleiðingum að núningsgat myndaðist á efri hluta þrengingar við botn kvíarinnar. Netið hefur verið lagfært og verður gatið stærðarmælt þegar kvíin verður tekin á land en áætluð stærð gatsins er um 80cm x 50cm. Fyrtækið hefur látið kafara yfirfara aðrar kvíar og búnaðinum verður öllum skipt út á þessu ári, að því er segir í tilkynningu Mast.

Net var sett um kvínna um helgina og fannst enginn fiskur í því við skoðun. Ekki er hægt að áætla hversu margir fiskar hafa sloppið fyrr en starfsmenn fyrirtækisins hafa lokið við slátrun úr kvínni en áætlað er að það verði nú í lok febrúar eða í byrjun mars. Um er að ræða geldan og sjúkdómalausan regnbogasilung sem er ekki fær um að fjölga sér í íslenskri náttúru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert