Eldur kom upp í garðyrkjustöð

Samkvæmt tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu virðist hafa kviknað í einu …
Samkvæmt tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu virðist hafa kviknað í einu ræktunarborðinu út frá rafmagnsbúnaði með þeim afleiðingum að hluti borðsins brann og húsið fylltist af reyk. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Eldur kom upp í garðyrkjustöð í Hveragerði á laugardagskvöldið. Eldurinn var staðbundin á ræktunarborði í einu af gróðurhúsum stöðvarinnar. Samkvæmt Kristmundi Hannessyni, eiganda garðyrkjustöðvarinnar uppgötvaðist eldurinn fljótt og slökkviliðið var snöggt á staðinn og að slökkva eldinn.

Samkvæmt tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu virðist hafa kviknað í einu ræktunarborðinu út frá rafmagnsbúnaði með þeim afleiðingum að hluti borðsins brann og húsið fylltist af reyk. Er borðið úr plastefnum.

Kristmundur segir  að talsverður reykur hafi komið og nú þurfi að hreinsa talsvert mikið í gróðurhúsinu, en að flestar plöntur hafi sloppið og eyðileggingin sé ekki mikil.

„Þetta er drulluskítugt og það tekur tíma að þrífa þetta,“ sagði Kristmundur þegar mbl.is náði tali af honum.

Lögreglumaður, sem reyndar er líka slökkviliðsmaður í hlutastarfi, var fyrstur á vettvang og náði að slökkva eldinn með slökkvitæki. Húsið var síðan reykræst af slökkviliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert