Hjónabandið talið til málamynda

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu íslenskrar konu og erlends manns um að ógiltur verði úrskurður kærunefndrar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa manninum úr landi og banna endurkomu hans til Íslands í tvö ár.

Málið, sem var dómtekið 11. janúar síðastliðinn, var höfðað í maí á síðasta ári. Alls voru þrír úrskurðir kærunefndar útlendingamála kærðir.

Kynntust á netinu

Stefnendur kynntust á spjallvef á netinu í ágúst 2013. Erlendi maðurinn kom hingað til lands frá Ítalíu árið 2013, þar sem hann hafði þá dvalarleyfi. Konan hafði þá sótt um lögskilnað frá fyrrverandi eiginmanni sínum. Þau bjuggu þó áfram saman um hríð eftir komu mannsins til Íslands.

Stefnendur gengu í hjónaband 30. janúar 2014 og daginn eftir sótti maðurinn um dvalarleyfi hér á landi fyrir maka Íslendings.

Útlendingastofnun tók viðtöl við hjónin í ágúst 2014 og með bréfi mánuði síðar var manninum kynntur sá grunur Útlendingastofnunar að hjúskapur þeirra væri til málamynda. Veittur var 15 daga frestur til að leggja fram gögn eða andmæli gegn því.

Lögmaður mannsins skilaði greinargerð þar sem andmælt var gruni stofnunarinnar um málamyndahjúskap.

Útlendingastofnun synjaði manninum um dvalarleyfi hér á landi 3. desember 2014 vegna rökstuddra grunsemda um að hann og konan hefðu gengið í hjónaband til málamynda og í þeim eina tilgangi að afla manninum dvalarleyfis.

Ákvörðunin var kærð til innanríkisráðuneytisins og tók kærunefnd útlendingamála við málinu eftir að hún tók til starfa 1. janúar 2015.  

Körfuboltamaður bar vitni 

Við aðalmeðferð málsins gaf körfuboltaleikmaður símaskýrslu sem vitni. Hann sagðist þekkja manninn og konuna. Hann lýsti ekki sérstökum vinatengslum við þau. Bróðir konunnar kom einnig fyrir dóm sem vitni. Hann sagðist kannast við manninn. Hann kæmi fyrir sjónir sem eiginmaður systur sinnar og þau hefðu komið saman í fjölskyldusamkvæmi. Hann svaraði því til að honum hefði ekki verið boðið í brúðkaup þeirra en hefði nokkrum sinnum heimsótt þau.

Giftu sig einum og hálfum mánuði eftir komuna

„Til þess ber og að líta að stefnandi hefur aðeins verið í hjúskap með stefnanda, B, frá 30. janúar 2014, en þau giftu sig aðeins einum og hálfum mánuði eftir komu hans hingað til lands. Líkt og áður hefur komið fram hefur stefnanda, A, ekki tekist að sýna fram á það með óyggjandi hætti að til þessa hjúskapar hafi ekki verið stofnað til málamynda og í þeim tilgangi einum að afla honum dvalarleyfis hér á landi,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Engar þungbærar afleiðingar

„Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að efast um að stefnandi, A, sé heill heilsu og vinnufær. Þar af leiðandi verður ekki annað ráðið en að stefnandi eigi auðvelt með að flytja af landi brott og koma sér fyrir á öðrum stað. Verður því ekki séð að brottvísun stefnanda, A, hefði þungbærar afleiðingar fyrir hann eða fjölskyldulíf hans. Þá verður ekki talið ósanngjarnt að ætla að stefnendur hafi möguleika á því að taka upp búsetu í öðru landi. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að brottvísun stefnanda, A, feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og hans nánustu aðstandendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert