Töfrandi tenging við Ísland

„Ísland er núna alveg sérstakt fyrir okkur. Þetta var frábært …
„Ísland er núna alveg sérstakt fyrir okkur. Þetta var frábært frí en líka þýðingarmikið fyrir okkur.“ Mynd/Rebecca Douglas

Bandarísku hjónin Richard og Shasten Hildebrand komu til Íslands í fyrsta skipti í síðustu viku en þau hafði lengi langað til að sækja landið heim. Richard og Shasten giftu sig í New York í byrjun febrúar og ákváðu þau að skiptast á brúðkaupsheitum hér á landi. Brúðkaupsmyndatakan fór einnig fram á Íslandi en að henni lokinni ákvað parið að gefa brúðarkjólinn til Rauða krossins á Íslandi.

„Í stað þess að pakka kjólnum og setja hann í poka vildum við að hann færi á gott heimili og að einhver hlyti sömu góðu örlög og við. Við höfum verið saman í þrjú ár og við vildum færa einhverjum ást okkar,“ sagði Richard í samtali við mbl.is en blaðamaður var fyrir tilviljun í verslun Rauða krossins á Laugaveginum þegar parið kom þangað með kjólinn.

Ísland var rétti staðurinn

„Við vorum búin að skipuleggja þessa ferð til Íslands og ætluðum að gifta okkur í New Orleans um páskana. Við fundum fyrir þessari töfrandi tengingu við Ísland alveg frá því að við bókuðum ferðina svo við ákváðum að það væri rétti staðurinn til að skiptast á persónulegum brúðkaupsheitum og til að fullkomna andlega tengingu hjónabandsins,“ sagði Richard.

Ljósmyndarinn tók myndir af Richard og Shasten víðs vegar á …
Ljósmyndarinn tók myndir af Richard og Shasten víðs vegar á Reykjanesinu, meðal annars við Hvalneskirkju. Mynd/Rebecca Douglas

Shasten sagði einu ástæðu þess að þau létu gefa sig saman í New York fyrst vera vegna allrar pappírsvinnunnar sem hefði fylgt, hefðu þau gift sig á Íslandi. 

„Ísland er alveg sérstakt í okkar huga núna. Þetta var frábært frí en líka þýðingarmikið fyrir okkur því við skiptumst ekki á persónulegum brúðkaupsheitum í New York, þar fórum við bara í dómshúsið. Hérna höfðum við persónulega athöfn, fyrir okkur. Ég nota kjólinn ekki aftur og það var táknrænna fyrir okkur að skilja hann eftir [á Íslandi]. Vonandi mun einhver annar nota hann,“ sagði Shasten.

Í íslenskum lopapeysum

Brúðkaupsmyndatakan fór fram á Reykjanesinu en myndirnar tók breski ljósmyndarinn Rebecca Douglas.

„Við vorum í brúðkaupsfötunum okkar og tókum helling af myndum víðs vegar á Reykjanesinu. Svo skiptum við yfir í íslensku peysurnar okkar, svona til þess að fá í okkur hlýjuna, og skiptumst á brúðkaupsheitum yst á nesinu.“

Richard og Shasten skiptust á persónulegum brúðkaupsheitum í íslenskum lopapeysum.
Richard og Shasten skiptust á persónulegum brúðkaupsheitum í íslenskum lopapeysum. Mynd/Rebecca Douglas

Richard og Shasten voru á landinu í um viku og sögðust vera afar ánægð með ferðina. Auk myndatökunnar á Reykjanesinu höfðu þau farið Gullna hringinn og í norðurljósaferð þegar blaðamaður talaði við þau fyrir helgi. Þá voru þau á leið norður á Mývatn en Richard hafði lengi dreymt um að skoða Dimmuborgir.

„[Ísland] er staður sem okkur bæði hefur alltaf langað til að sjá. Allt landið er töfrandi […] það er eins og það sé ekki einu sinni hluti af jörðinni, okkur finnst þetta svo magnað. Ameríka er falleg […] en ekkert miðað við það sem við sjáum hér.“

Sérstakt og skemmtilegt

Ásta S. Hreiðarsdóttir, verslunarstjóri verslunar Rauða krossins við Laugavegi 12, sagðist ekki hafa upplifað það áður að einhver komi með brúðarkjól í búðina til hennar. Þó væru margir sem gæfu brúðarkjólana sína til samtakanna en þeir færu þá venjulega í gegnum flokkun og væri svo haldið til haga fyrir sérstaka brúðardaga.

Brúðarkjóllinn fór beint út í glugga í verslun Rauða krossins …
Brúðarkjóllinn fór beint út í glugga í verslun Rauða krossins við Laugaveg 12. Mynd/Richard Hildebrand II

„Ég hef ekki tekið svona áður en mér fannst ég ekki geta sent þau í burtu með þetta. Þetta var svolítið sérstakt, það er svo gaman þegar svona kemur.“

Þess má geta að brúðarkjóllinn er ekki lengur í versluninni en starfsmanni sem blaðamaður ræddi við í dag þótti líklegt að það væri vegna þess að einhver hafi þegar keypt hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert