Búið að opna Þrengslaveg

Búið er að opna fyrir umferð um Þrengslin.
Búið er að opna fyrir umferð um Þrengslin. Mynd/Vegagerðin

Búið er að opna Þrengslaveg á ný eftir að flutningabifreið rann til í snjó og slabbi þar í morgun og þveraði veginn við Skógarhlíðarbrekku. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi festust nokkrir bílar einnig á Þrengslavegi í morgun vegna hálku og slabbs en engin slys urðu á fólki.

Flutningabifreið þveraði einnig Suðurlandsveg við Litlu kaffistofuna en að sögn lögreglu leystist fljótlega úr því og því kom ekki til lokunar.

Bifreið valt á milli Hveragerðis og Selfoss á níunda tímanum í morgun og voru ökumaður og farþegi fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar.

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi fyrir hádegi kom fram að margir ökumenn hefðu misst bifreiðar sínar út af veginum í umdæminu.

„Lögregla beinir þeim tilmælum til fólks að stilla ökuhraða í hóf og huga að dekkjabúnaði bifreiða. Mikið slabb er á vegum og skyggni oft lélegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert