Niðurstaðan kynnt á föstudag

Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. Þeir hurfðu báðir sporlaust …
Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. Þeir hurfðu báðir sporlaust á áttunda áratugnum.

Stefnt er að því að kynna niðurstöður endurupptökunefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á föstudag. Úrskurðir er varða sex manneskjur, sem sakfelldar voru í málunum á sínum tíma, verða birtir kl. 14 þann dag. 

Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar, vill ekki gefa upp fyrir fram hver niðurstaða nefndarinnar er en segir að ákvörðun hennar sé endanleg. Það þýði að ef nefndin synji málinu endurupptöku sé því lokið og ef hún mæli fyrir endurupptöku verði málsaðilar að beina því til viðkomandi dómstóls sem síðan taki afstöðu til málsins.

Björn segist fagna því að komið sé að þessum tímapunkti en nefndin hefur haft málið til umfjöllunar í á þriðja ár.

Ábending ekki skoðuð frekar

Um miðjan nóvember barst ábending frá manni í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar sem ákveðið var að skoða nánar. Það frestaði kynningu á niðurstöðu nefndarinnar talsvert. Björn segir að sú ábending hafi þegar upp var staðið ekki haft nein áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Lögregla tók skýrslu af manninum fyrir áramót og var henni komið áfram til setts ríkissaksóknara í málinu og nefndarinnar. „Það sem út úr því kom gaf ekki tilefni til að [ábendingin] yrði skoðuð meira,“ segir Björn.

Davíð Þór Björg­vins­son, sett­ur rík­is­sak­sókn­ari í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­un­um, komst að þeirri niður­stöðu sumarið 2015 og haustið 2016 að rök væru fyr­ir hendi til end­urupp­töku á máli þeirra sem dæmd­ir voru. 

Endurupptökunefnd hefur svo haft málið til skoðunar, þ.e. hvort taka ætti aftur upp mál sexmenninganna, þeirra Sæv­ars Ciesi­elskis, Tryggva Rún­ars Leifs­son­ar, Al­berts Kla­hn Skafta­sonar, Guðjóns Skarphéðinssonar, Erlu Bolladóttur og Kristjáns Viðars Viðarssonar. Fólkið hafði ýmist sjálft eða aðstandendur þess beðið um endurupptöku fyrir utan Kristján Viðar. Settur ríkissaksóknari beindi því sjálfur til nefndarinnar að mál hans yrði einnig endurupptekið. 

Hafið yfir allan vafa

Skýrsla starfs­hóps um Guðmund­ar- og Geirfinns­málið, sem var kynnt í mars 2013, er á meðal þeirra gagna sem lögð voru til grund­vall­ar end­urupp­töku­beiðninni. Í skýrsl­unni kom fram, að það væri hafið yfir all­an skyn­sam­leg­an vafa að framb­urður allra þeirra sem hlutu dóm í mál­inu hefði verið óáreiðan­leg­ur eða falsk­ur. Veiga­mikl­ar ástæður væru fyr­ir end­urupp­töku.

Starfs­hóp­ur­inn sagði þrjár leiðir mögu­leg­ar. Ein var sú að rík­is­sak­sókn­ari myndi meta hvort til­efni væri til end­urupp­töku. 

Hurfu báðir sporlaust

Guðmund­ur Ein­ars­son var fædd­ur 1956 og bú­sett­ur í Blesu­gróf í Reykja­vík. Laug­ar­dags­kvöldið 26. janú­ar 1974 yf­ir­gaf Guðmund­ur, þá 18 ára gam­all, heim­ili sitt og hugðist sækja dans­leik í Alþýðuhús­inu í Hafnar­f­irði. Til hans sást aðfaranótt sunnu­dags en til­kynnt var um hvarf hans til lög­regl­unn­ar í Reykja­vík þriðju­dags­kvöldið 29. janú­ar. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

Geirfinnur Einarsson hvarf svo spor­laust að kvöldi 19. nóv­em­ber árið 1974. Mennirnir tengdust ekkert.

Kristján, Sæv­ar og Tryggvi voru sak­felld­ir fyr­ir að hafa orðið Guðmundi að bana. Kristján og Sæv­ar voru einnig dæmd­ir fyr­ir að bana Geirfinni. Tví­menn­ing­arn­ir voru dæmd­ir í ævi­langt fang­elsi. Guðjón hlaut tólf ára dóm. Auk þeirra fengu Erla Bolla­dótt­ir og Al­bert Kla­hn dóma fyr­ir minni sak­ir.

Hér má lesa dómana í heild.

Björn segir að enginn blaðamannafundur verði haldinn til að kynna niðurstöðu endurupptökunefndarinnar heldur verði úrskurðirnir sex birtir á heimasíðu nefndarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert