Varað við vindhviðum við fjöll

Kröpp lægð mun sigla til norðausturs fyrir sunnan landið í …
Kröpp lægð mun sigla til norðausturs fyrir sunnan landið í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Kröpp lægð mun sigla til norðausturs fyrir sunnan landið í dag. Henni fylgir allhvöss austan- og síðar norðaustanátt að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Hvassast verður suðaustanlands síðdegis og varar Veðurstofan við því að búast megi við hvössum vindhviðum við fjöll suðaustan til á landinu síðdegis í dag.

Slydda eða snjókoma verður á landinu sunnanverðu fram að hádegi, en rigning við ströndina. Úrkomusvæðið færist síðan til austurs og má búast við talsverðri slyddu eða snjókomu á Austurlandi síðar í dag, en þá styttir upp suðvestanlands.

Norðan- og norðvestanlands verður öllu skaplegra veður, en þar er útlit fyrir fremur hægan vind og stöku él. Hiti er yfirleitt um eða yfir frostmarki. Það dregur síðan úr vindi og úrkomu í nótt.

Á morgun og fimmtudag má síðan gera ráð fyrir suðaustlægri átt, og víða má búast við éljum en heldur kólnar í veðri. Það gengur síðan í suðaustanhvassviðri eða -storm með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri seint á föstudag.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert