Bæta má meðferð með notkun gagnagrunna

Anders Quitzau segir IBM einnig vilja búa til gagnagrunn um …
Anders Quitzau segir IBM einnig vilja búa til gagnagrunn um hvernig halda eigi heilsunni góðri. mbl.is/Eggert

Watson Health gagnagrunninum er ætlað að bæta líf og taka á mest aðkallandi vandamálum í heilbrigðiskerfinu í gegnum gagnanotkun. Þetta sagði Anders Quitzau á heilbrigðisráðstefnu um hugræna tölvun og áhrif hennar á heilbrigðiskerfi framtíðarinnar sem haldin var á Grand hótel í dag.

Quitzau, sem starfar hjá IBM í Danmörku sagði gloppur í nákvæmni meðferða og erfiðleikana við að veita rétta meðferð sístækkandi hópi sjúklinga í þjóðfélögum sem eru að eldast vera meðal þeirra vandamála sem heilbrigðiskerfi samtímans væru að takast á við. Þá væru einnig innan við helmingur þeirra ákvarðana sem teknar eru þegar lyfjagjafir eru ákvarðaðar í dag byggðar á sönnunum og rökum.

Þarf að skoða gögn betur áður en meðferð er ákvörðuð

„Við teljum gagnanotkun geta aðstoðað við þetta,“ sagði Quitzau. „Það þarf að skoða gögn betur áður en meðferð er ákvörðuð.“ Þar ætti hann ekki eingöngu við læknisfræðilegar- og heilsufarsupplýsingar sjúklingins, heldur geti jafnvel þjóðfélags- og lífsstílsupplýsingar komið að notum þegar þegar meðferð er ákvörðuð. „Í dag er ekki verið að nota nema um 0,1% upplýsinga þegar ákvarðanir um heilbrigði okkar eru teknar,“ sagði hann.

Watson Health er svo nefnd hugræn tölvun, þ.e.  tækni sem lærir og byggir upp þekkingu, skilur venjulegt tungumál og getur komið með greiningar og meðferðartillögur sem byggja á rökum.

Stutt er síðan að stjórnvöld í Finnlandi undirrituðu samning við IBM um notkun Watson. „Finnska stjórnin vill vita hvernig hún geti notað þær heilbrigðisupplýsingar sem til eru í landinu,“ segir Quitzau og bætir við að verið sé að reisa gagnabanka með upplýsingum víðar. „Síðan viljum við líka búa til gagnagrunn um það hvað þarf til að halda heilsunni góðri.“

Prófaði margar meðferðir, en engin dugði

Sagði Quitzau Watson hafa verið nýtt með margvíslegum hætti um árabil, en að upphafið af notkun kerfisins í heilbrigðisþjónustunni megi rekja til ársins 2011, þegar byrjað var að mata kerfið á upplýsingum um krabbamein og krabbameinslækningar. „Fyrsti sjúklingurinn var 60 ára japönsk kona sem þjáðist af bráðahvítblæði. Hún var búin að fara í gegnum nokkrar meðferðir en ekkert dugði. Byggt á þeim upplýsingum sem var búið að mata Watson á gat kerfið hins vegar bent á að hún þjáðist af sjaldgæfri gerð hvítblæðis og þyrfti annarskonar meðferð,“ segir Quitzau og bætir við að konan hafi náð fullum bata í kjölfarið.

„Watson er búinn að vera að læra undanfarin fjögur ár um krabbamein og heilsu manna,“ segir hann og bætir við að kerfið sé búið að vera að fá sína þekkingu frá krabbameinslæknum og öðrum sérfræðingum, auk þess sem það hafi verið matað á upplýsingum u.þ.b. 4.000 sjúklinga.

Upplýsingar koma úr fræðiritum og vísindagreinum tengdum læknisfræðinni, en um 700.000 slíkar greinar koma út árlega. „Og það er gífurlega mikil þekking,“ segir Quitzau og bætir við að eðlilega sé erfitt fyrir sérfræðinga að hafa yfirlit yfir þær allar.

Fann sex krabbameinsprótein á einum mánuði

„Það tók vísindamenn 30 ár að finna og greina 28 krabbameinsprótein, en þegar Watson var matað á upplýsingum um þá þekkingu sem til er í dag, þá fann kerfið sex krabbameinsprótein til viðbótar á einum mánuði.“

Quitzau bætir við að þannig hafi kerfið einnig fundið 5 ný gen sem tengist taugasjúkdóminum ALS. „Mikið af upplýsingunum er oft þegar til staðar, en við höfum ekki alltaf innsýn í þær upplýsingar  sem við höfum. Í þessu tilfelli hafði þekkingin verið til staðar í þrjú ár, en við sáum hana bara ekki.“

Upplýsingar þurfa að koma víðar að

Hann segir Watson  þá einnig byggja á margvíslegum lýðheilsu- og þjóðfélagsupplýsingum, sem og upplýsingum um einstaklinginn, sem oft geti ekki síður skipt miklu máli við sjúkdómsgreiningu.

Hraða þurfi þó upplýsingaöflun í þessu opna kerfi ef það eigi að nýtast fljótt á fleiri sviðum innan heilbrigðiskerfisins. „Það hefur tekið okkur fjögur ár að afla þessarar þekkingar um krabbamein og ef við viljum efla þekkinguna hraðar þá þurfa upplýsingar að koma víðar,“ segir hann og kveður IBM telja mikilvægt að það gerist.

„Þegar stjórnun umönnunar, lýðheilsu, greiningar og forvarnaraðgerðir eru sameinaðar þá er maður með bestu upplýsingarnar til að veita sjúklingum bestu þjónustuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert