Ungskáldin eru á öllum aldri... líka 57 ára

Sigurbjörg er deildarstjóri í eldri deild leikskólans Skýjaborgir í Hvalfjarðarsveit.
Sigurbjörg er deildarstjóri í eldri deild leikskólans Skýjaborgir í Hvalfjarðarsveit.

„Ljóðin í Gáttatifi eru bernskuljóð í þeim skilningi að þau eru með fyrstu ljóðunum mínum,“ segir Sigurbjörg Friðriksdóttir, sem sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, komin hátt á sextugsaldur. Hún segist hvergi nærri vera hætt.

Meðgangan hófst upp úr aldamótum, þótt hennar nánustu hefðu lengi vel ekki hugmynd um að Sigurbjörg Friðriksdóttir gengi með ljóðskáld í maganum. Hún var enda ekkert að flíka ljóðunum sínum, sem hún tók upp á að yrkja „á gamalsaldri“, eins og hún segir. En aldur er afstætt hugtak. A.m.k. mat forlagið Partus það svo að ljóð þessarar 57 ára konu verðskulduðu að vera gefin út í bók í seríunni Meðgönguljóð, sem ætluð er til að koma upprennandi ljóðskáldum á framfæri. Gáttatif leit dagsins ljós í fyrra og er fyrsta ljóðabók Sigurbjargar. Áður hafði birst eftir hana ljóð í dagatalsbókinni Konur eiga orðið allan ársins hring.

„Ég fann ekki þörf hjá mér til að skrifa fyrr en hin síðari ár. Ljóðin í Gáttatifi eru bernskuljóð í þeim skilningi að þau eru með fyrstu ljóðunum mínum. Þar sem ég er svo ung í ljóðagerðinni get ég með réttu kallast ungskáld,“ segir Sigurbjörg og brosir. Eftir útgáfu bókarinnar, sem er sú 15. í röð Meðgönguljóða, fannst henni sér opnast nýr heimur. „Mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu starfi með grasrótinni, sækja ljóðakvöld og ýmsa viðburði í tengslum við útgáfuna, til dæmis að hittast og sauma bækurnar saman, eins og við gerðum, þrjú ungskáldin, sem gáfum út Meðgönguljóð á sama tíma.“

Sigurbjörg er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, en fluttist með fjölskyldu sinni til Hvammstanga eftir gos þar sem faðir hennar gerði út á rækjuveiðar á litum báti. Hún giftist Skúla Þórðarsyni frá Hvammstanga. Þau héldu til náms í Noregi, bjuggu þar í nokkur ár og Sigurbjörg tók tannfræðipróf frá Háskólanum í Ósló. Eftir heimkomuna lauk hún prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands. Síðan hafa þau hjónin búið bæði á Blönduósi og Hvammstanga, en settust að í Hvalfjarðarsveit fyrir þremur árum. Sigurbjörg hefur starfað við tannfræðslu og sem leik- og grunnskólakennari allan sinn starfsferil og er núna deildarstjóri í leikskólanum Skýjaborgum í sinni sveit. Svo yrkir hún þegar andinn kemur yfir hana.

„Ég sest aldrei niður og ákveð að nú ætli ég að skrifa ljóð, það er frekar að ljóðin komi til mín þegar ég er í ákveðnu hugarástandi. Síðan tekur við ferli, ég spái og spekúlera, klíp venjulega eitthvað af frumgerðinni því ég er meira fyrir knappt form en langt. Upphaflega hugsaði ég ljóðin í Gáttatifi sem stök ljóð, en eftir að ég fór að vinna með Jóni Kalman, rithöfundi, sem var minn ritstjóri, sá ég að þau mynda ákveðna samfellu; þema í kringum tilfinningar, sorgina og söknuðinn, þótt sums staðar örli líka á gleðinni og kannski smá kaldhæðni,“ segir Sigurbjörg.

Hún var ekki í vandræðum með nafn bókarinnar. Gáttatif kom til hennar, rétt eins og ljóðin. „Orð yfir óreglulegan hjartslátt er vel við hæfi í ljósi þess að í fyrstu fannst mér mikil óregla í þessum ljóðum mínum, þau vera alls konar og úr öllum áttum.“

Persónulegur tónn

Ljóðin í Gáttatifi eru með persónulegum tón og benda mörg hver til að hún hafi gengið í gegnum erfiða lífsreynslu. Sigurbjörg neitar því ekki, en eins og í ljóðum sínum er hún ekki orðmörg um þann atburð sem olli því að hún fór að tjá hugsanir sínar í ljóðum. „Ég missti föður minn, Friðrik Friðriksson, skipstjóra, óvænt í sjóslysi árið 2000. Lík hans fannst ekki fyrr en einum og hálfum mánuði síðar, eftir að við, aðstandendur hans, höfðum þurft að beita okkur fyrir að leitað yrði til þrautar.“

Þrátt fyrir þessa vitneskju hljómar fyrsta ljóðið í Gáttatifi fremur torrætt eins og reyndar mörg góð ljóð:

hvort sem þú trúir því

eða ekki

þá var það í síðustu viku

að þessi orð komu

í höfuðið á mér

takk pabbi

takk fyrir

að deyja

þegar þú fórst

opnaðist

farvegur

„Þarna er ég einfaldlega að lýsa því hvernig andlát hans opnaði mér farveg til að skrifa og tjá mig í ljóðum, sem var mín leið til að vinna úr sorginni. Á þessum tíma fór margt af stað í kollinum á mér, sérstaklega þegar ég var ein með sjálfri mér og horfði yfir flóann,“ útskýrir Sigurbjörg.

Í þessu ljósi er ekki ólíklegt að ljóðið á síðustu blaðsíðu Gáttatifs myndgerist í huga lesandans, en fyrri hluti þess er á þessa leið:

hún opnar skúffuna og réttir mér kassann

ég handfjatla eigur hans

sakna þess að finna ekki sterku þanglyktina sem ég hafði

fundið þegar ég fór á lögreglustöðina

þefa af brúna leðurveskinu sem hafði fengið spanskgrænu

á saumana eftir leguna á hafsbotni

annars hafði það ekkert látið á sjá

ekki heldur kortin og myndirnar

hún opnar skápinn og rótar í skúffunni

dregur fram sandala og segir

þessi kom líka

ég hvái

Orðaflæði fer í gang

„Kveikjan að ljóðinu var heimsókn til móður minnar þar sem hún sýndi mér hluti sem höfðu komið upp með föður mínum... á sama tíma sagði hún mér frá andláti bestu vinkonu sinnar. Á þessu augnabliki upplifði ég dauðann mjög sterkt, fannst hann umkringja mig og þessi dauðalykt sem fyllti vitin fylgdi mér heim í rúm. Á heimleiðinni fór eitthvert orðaflæði í gang eins og oft gerist. Síðan lá textinn hjá mér þangað til ég réðst að honum með niðurskurðarhnífnum,“ segir Sigurbjörg, sem eins og í öllum sínum ljóðum lætur í hendur lesandans að stilla sér upp í ljóðmyndinni og túlka.

Og enn flæða orðin og finna sér jafnóðum farveg. Sigurbjörg er hvergi nærri hætt. Hún er að þreifa fyrir sér með ýmis ljóðaform og hyggst gefa út aðra ljóðabók. „Maður þarf að láta í sér heyra ef maður hefur eitthvað að segja,“ segir hún og lætur flakka splunkunýtt ljóð, sem hún kallar Blómstrandi hégómi – og er á allt öðrum nótum en ljóðin í Gáttatifi:

meðan við stundum fitufrystingar

fitusog

svelta börn

meðan við límum gervineglur

augnahár

svelta börn

meðan við látum tannhvítta

botoxa

svelta börn

meðan við skerum ofurkroppinn, mittismálið

svelta börn

meðan við nærumst á andoxunarbombum

lágkolvetnasprengjum

deyja börnin

Sigurbjörg tekur fram að ljóðið sé óritskoðað og lendi hugsanlega undir niðurskurðarhnífnum.

„Ég er bara alveg búin að fá nóg af öllum þessum hégóma út um allt; í blöðum, tímaritum og víðar,“ segir hún. „Á hvaða blaði, ert þú annars...?“ spyr hún svo kankvíslega.

Ljóð til að kippa með sér

Gáttatif eftir Sigurbjörgu Friðriksdóttur tilheyrir seríu Meðgönguljóða, sem gefin er út af Partusi. Serían er helguð nýjabruminu í íslenskri ljóðlist, en forlagið sérhæfði sig upphaflega í útgáfu upprennandi ljóðskálda. Útgáfa Meðgönguljóða hefur síðan getið af sér tvær útgáfuraðir, Meðgöngufræ og Meðgöngumál, þar sem sjónum er beint að fræðitextum og smásögum.

Meðgönguljóð spruttu af löngun ungskálda til að koma ljóðum til almennings. Hugmyndin var m.a. að gera ljóð aðgengilegt listform og ódýrt þannig að fólk gæti kippt með sér „meðgöngubolla“ jafn léttilega og „take away“-kaffibolla. www.partuspress.com

Sigurbjörg er mjög ánægð með bókarkápu Gáttatifs. Hún segist nánast …
Sigurbjörg er mjög ánægð með bókarkápu Gáttatifs. Hún segist nánast hafa orðið grátklökk þegar hún sá myndina, sem er eftir Elínu Eddu, nema í Listaháskóla Íslands, ljóðskáld og myndasöguhöfund. „Afar falleg mynd og lýsandi fyrir óræðnina í ljóðunum; fólkið, hafið og klettarnir eru í mínum huga eins og svolítið handan þessa heims“, segir hún.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert