Einungis köld sturta í boði

mbl.is

Margir urðu frá að hverfa sem ætluðu að skella sér í Laugardalslaugina í Reykjavík í morgun eftir að hafa fengið þau skilaboð frá starfsfólki að laugin væri lokuð þar sem ekkert væri heita vatnið. Þetta segir viðmælandi mbl.is sem ætlaði að fá sér sundsprett.

Bjarni Kjartansson, rekstrarstjóri Laugardalslaugar, segir í samtali við mbl.is að skilaboðin til sundgesta hafi ekki verið alveg rétt. Laugin væri ekki lokuð og nóg heitt vatn væri í laugunum. Hins vegar hefði komið upp bilun í sturtukerfunum sem þýddi að einungis kæmi kalt vatn úr sturtunum. Til hafi staðið að vara fólk við því svo það kæmi ekki á óvart.

Bjarni segir að líkleg skýring sé sú að Veitur hafi lokað stuttlega fyrir rafmagnið til Laugardalslaugar í morgun vegna viðgerða og tölvukerfið sem stýrði sturtukerfunum væri viðkvæmt. Hins vegar væri verið að vinna að lagfæringu og sagðist hann búast við að sturturnar yrðu komnar í samt lag innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert