Geti setið einungis sem ráðherrar

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp Alþingis hefur verið lagt fram þar sem kveðið er á um að þingmaður geti kosið að sitja á Alþingi einungis sem ráðherra á meðan hann gegnir slíku embætti. Varaþingmaður sé þá kallaður inn í hans stað og njóti allra sömu réttinda og aðalmenn á þingi á meðan. Varaþingmaðurinn hverfur af þingi þegar kjörtímabilið rennur út eða áður, við þingrof eða þegar ráðherranum hefur verið veitt lausn frá embætti. 

Frumvarpið hefur áður verið flutt margoft en fyrsti flutningsmaður að þessu sinni er Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Aðrir flutningsmenn koma úr röðum Pírata, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Fram kemur í greinargerð að það sé álit flutningsmanna að skýrari aðskilnaður löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins styðji við vandaðri vinnubrögð við löggjafarstörfin. „Þetta á ekki einungis við um störf framkvæmdavaldsins sem er ábyrgt fyrir flestum frumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi, heldur einnig um störf löggjafans. Frumkvæði þingmanna að lagasetningu yrði líklega meira við skýrari aðgreiningu frá framkvæmdavaldinu.“

Tekið er fram að ráðherra héldi sömu kjörum og ef hann sinnti störfum sem þingmaður eftir sem áður sem þýddi að það leiddi til aukinna útgjalda sem nemur þingfararkaupi og öðrum greiðslum til varaþingmannsins ef ráðherra kysi að sitja einungis í krafti embættis síns á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert