„Nú man ég aldrei nafnið hans“

Jón Þór í ræðustól fyrr í dag.
Jón Þór í ræðustól fyrr í dag. Skjáskot/Vefur Alþingis

Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, virðist oft vefjast tunga um tönn þegar hann hyggst bera fram nafn kollega síns á þingi, Kolbeins Óttarssonar Proppé.

Gerðist það öðru sinni á tæpum mánuði í ræðustól Alþingis nú fyrir hádegi, við umræður um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þegar Jón Þór vísaði til ræðu Kolbeins sem hann hafði flutt þar á undan.

„... eins og annar ræðumaður, háttvirtur þingmaður Óttar, þarna, nú man ég aldrei nafnið hans ... Proppéson,“ sagði Jón Þór, en þá var erfiðleikunum ekki lokið. Brast hann að lokum í hlátur eins og fleiri í salnum. Atvikið má sjá í spilaranum hér að neðan, upp úr tímamarkinu 0:45.

„Proppéson?“

Áður hafði Jóni fipast við framburðinn á nafni Kolbeins, en þá í stóli forseta Alþingis í janúar síðastliðnum. Kolbeinn brosti þá og spurði, „Proppéson?“, áður en hann stökk aftur úr ræðustólnum til að leyfa Jóni að klára kynninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert