Skóflustunga tekin að íbúðakjörnum fyrir fatlaða

Borgarstjóri tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum íbúðakjarna við …
Borgarstjóri tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum íbúðakjarna við Austurbrún, sem ætlaður er fötluðu fólki. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum íbúðakjarna sem rísa á við Austurbrún 6a. Kjarninn er annar af tveimur slíkum íbúðakjörnum sem reisa á á næstunni.                     

Austurbrún 6a og Kambavað 5 eru tveir aðskildir íbúðakjarnar sem Félagsbústaðir, velferðasvið Reykjavíkur ásamt ráðgjöfum, hafa undirbúið síðustu misseri að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá borginni.  

Þar segir að kallað hafi verið eftir áliti aðstandenda, íbúa og starfsfólks í sértækum húsnæðissúrræðum við þarfagreiningu og frumhönnun og hafi þeir fengið að koma með ábendingar við hönnun kjarnanna.

Byggingarnar tvær eru keimlíkar í hönnun og í hvorum íbúðakjarna eru sex einstaklingsíbúðir, auk sameiginlegrar aðstöðu. Alls er því um að ræða heimili fyrir 12 einstaklinga og hefur öllum íbúðunum nú þegar verið úthlutað. Húsin verða byggð úr forsteyptum einingum og samkvæmt verksamningi er gert ráð fyrir að þau verði afhent sumarið 2018.  

Rekstur kjarnanna  og þjónusta við íbúa verður í höndum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem mun leigja húsnæðið af Félagsbústöðum. Verkið var boðin út í opnu útboði á vegum Félagsbústaða og var tekið tilboði frá Flotgólfum ehf. sem átti lægsta tilboðið í verkið.

Þetta eru tveir af fjórum íbúðarkjörnum sem borgarráð hefur samþykkt að reisa, en þegar er búið að byggja kjarna að Þorláksgeisla. Sá fjórði verður byggður í Einholti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert