Snjór og hálka á Suðurnesjum

Hálka, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur er á Norðurlandi og sums …
Hálka, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur er á Norðurlandi og sums staðar snjókoma og jafnvel skafrenningur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Snjóþekja og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja og éljagangur er á flestum leiðum á Suðurlandi. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og hálka og snjóþekja á Suðurnesjum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hefur umferðin gengið áfallalaust í nótt og morgun um Reykjanesbraut. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi fór bifreið út af í Kömbunum um miðnætti og hafnaði á vegriði. Engin slys urðu á fólki. 

Hálka, snjóþekja og éljagangur er á Vesturlandi. Þæfingsfærð er á Fróðárheiði en unnið er að hreinsun.

Á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir á flestum leiðum og sums staðar snjóþekja. Þæfingsfærð er á Kleifaheiði. Þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.

Hálka, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur er á Norðurlandi og sums staðar snjókoma og jafnvel skafrenningur. Ófært er á Hólasandi. Þæfingsfærð er á Hófaskarði og Hálsum en verið er að hreinsa.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur á flestum leiðum og sums staðar skafrenningur. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi.

Snjóþekja er víða með suðausturströndinni og þæfingur á kafla. Ófært er frá Mýrdalssandi að Gígjukvísl en unnið er að hreinsun, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert