Þurfti 34 spor eftir dúkahnífsárás

Þrítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa veist að öðrum manni og skorið hann með dúkahnífi í hægri kálfavöðvann, með þeim afleiðingum að hann hlaut 30 sentimetra langan og gapandi skurð, sem sauma þurfti saman með 34 sporum.

Árásin átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn Útlagann á Flúðum í Hrunamannahreppi í ágúst árið 2014. Brotið telst varða við 2. málsgrein 218. grein almennra hegningarlaga, sem lýtur að sérstaklega hættulegum líkamsárásum.

Er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Þá er af hálfu þolandans krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 kr. auk vaxta, til viðbótar við kostnað vegna atvinnutjóns, sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert