Brýnt að draga úr lyfjakostnaði

Ríkisendurskoðun telur brýnt að stemma stigu við hækkandi lyfjakostnaði.
Ríkisendurskoðun telur brýnt að stemma stigu við hækkandi lyfjakostnaði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Brýnt er að draga úr lyfjakostnaði að mati Ríkisendurskoðunar, sem ítrekar þó ekki ábendingar sem stofnunin sendi velferðarráðuneytinu 2014 um leiðir til að stemma stigu við hækkandi lyfjakostnaði á Íslandi, enda telur stofnunin ráðuneytið hafa komið til móts við ábendingar sínar.

Ríkisendurskoðun bendir þó í fréttatilkynningu á að lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands hafi verið 15,1 milljarðar króna árið 2015. „Heilbrigðisstofnanir hafa ótvírætt tækifæri til að draga úr þeim kostnaði með fjölþjóðlegu samstarfi við lyfjaútboð og er velferðarráðuneyti hvatt til að beita sér fyrir þátttöku Landspítala í slíku samstarfi,“ segir í tilkynningunni.

Í fyrri skýrslu sinni hvatti stofnunin velferðarráðuneytið til að leita frekari leiða til að fá aðgang að stærri lyfjamörkuðum með það að markmiði að draga úr lyfjakostnaði. Hafi ráðuneytið bent á að með lögum um opinber innkaup sem tóku gildi á síðasta ári, hafi dregið úr þeim hindrunum sem áður voru í vegi fjöl- eða alþjóðlegs samstarfs um útboð lyfjakaupa.

Þá hafi velferðarráðuneytinu einnig verið bent á mikilvægi þess að skilgreina fyrirfram hvernig meta eigi árangur af viðamiklum breytingum á heilbrigðiskerfinu. „Ríkisendurskoðun telur að þau markmið, tímasettar aðgerðir og árangursmælikvarðar sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga 2017 og í lyfjastefnu ráðuneytisins sýni að ráðuneytið hafi komið til móts við þessa ábendingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert