Miðað verði við lok 22. viku

Sóley Bender, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Þórunn Oddný Steinsdóttir með …
Sóley Bender, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Þórunn Oddný Steinsdóttir með skýrsluna. Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Meðal þess sem lagt er til í skýrslu nefndar sem vann að tillögum að heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir er að hugtakið fóstureyðingar verði ekki lengur notað heldur verði talað um þungunarrof.

Ennfremur er lagt til að konur fái sjálfar að taka ákvörðun um fóstureyðingar, nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því. Eftir sem áður verði ákvæði í lögum um að fóstureyðing skulu framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngu.

Verði ekki gerður greinarmunur vegna fötlunar

Fóstureyðing verði heimil fram að lokum 22. viku þungunar eða þar til fóstur telst hafa náð „lífvænlegum þroska.“ Ennfremur er lagt til að fellt verði niður að greinargerð tveggja fagaðila þurfi til heldur verði aðeins byggt á mati þess læknis sem framkvæmir aðgerðina.

Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að framkvæma fóstureyðingu eftir 16. viku meðgöngutímans nema fyrir hendi séu „ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu.“

Frétt mbl.is: Þungunarrof í stað fóstureyðingar

Einnig er lagt til í skýrslunni að úrskurðarnefnd um fóstureyðingu eftir 16. viku sem kveðið er á um í gildandi lögum verði lögð niður. Ennfremur er lagt til að ný lög um málaflokkinn geri ekki greinarmun á einstaklingum út frá fötlun.

Smokkar verði án endurgjalds í framhaldsskólum

Sömuleiðis er til að mynda lagt til að heimilt verði að ávísa hormónagetnaðarvörnum til stúlkna yngri en 18 ár án samráðs við foreldra og að slíkar getnaðarvarnir verði á endurgjalds fyrir stúlkur yngri en 20 ára og konur sem standi höllum fæti í samfélaginu. Byggt verði á mati fagaðila í þeim efnum.

Smokkar verði ennfremur án endurgjalds í framhaldsskólum landsins og embætti landlæknis hafi eftirlit með þeirri framkvæmd. Fræðsla og ráðgjöf um kynheilbrigði verði stóraukin.

Þá er lagt til að lækka lágmarksaldurs vegna ófrjósemisaðgerða niður í 18 ár í samræmi við gildandi lögræðislög. Einungis verði heimilt að framkvæma slíkar aðgerðir á einstaklingum yngri en 18 ára af læknisfræðilegum ástæðum ef lífi og heilsu er stefnt í voða vegna þungunar eða fæðingar eða ef ljóst er að barn verður alvarlega vanskapað eða lífshættulega veikt.

Sóley Bender prófessor fór fyrir nefndinni en aðrir í henni voru Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi og Jens A. Guðmundsson, sérfræðingur í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum. Starfsmaður nefndarinnar var Þórunn Oddný Steinsdóttir, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert