Ráðherra opni neyðarbrautina á ný

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ráðherra samgöngumála verði falið að sjá til þess að svonefnd neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný svo fljótt sem verða megi. Ráðherra láti útbúa aðgerðaáætlun í þeim efnum og upplýsi þingið um innihald hennar í síðasta lagi í maí 2017.

Fram kemur í greinargerð að nauðsynlegt sé að NA/SV-flugbrautin verði opnuð á ný þar til fundin hefur verið framtíðarlausn fyrir Reykjavíkurflugvöll. Flugvöllurinn gegni lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og hafi þannig verulega þýðingu fyrir samgönguöryggi þjóðarinnar.

„Flugvöllurinn er einnig afar mikilvægur fyrir sjúkraflug með sjúklinga af landsbyggðinni á Landspítalann. Eina hátæknisjúkrahús landsins er staðsett í Reykjavík og því er nauðsynlegt að tryggja eins vel og auðið er að leið sjúklinga af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar sé ávallt greið,“ segir ennfremur og áfram:

„Reglulega kemur upp sú staða að veðurskilyrði og færð á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar eru þannig að einungis er hægt að lenda á neyðarbraut vallarins. Í hvassri suðvestanátt er neyðarbrautin t.d. eina flugbrautin á suðvesturhorni landsins sem sjúkraflugvélar geta lent á.“

Fyrsti flutningsmaður er Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert