Sautján ár samtals í varðhaldi

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla …
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

6.146 dagar eða tæp sautján ár. Svo lengi sátu sexmenningarnir sem sakfelldir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum samanlagt í gæsluvarðhaldi á meðan rannsókninni stóð á áttunda áratugnum. Stóran hluta þess tíma voru þeir í einangrunarvist. Gísli H. Guðjónsson prófessor, sem hefur unnið við sálfræðimat í meira en 1.000 sakamálum víða um heim, veit ekki um annað sakamál þar sem sakborningar hafa verið vistaðir svo lengi í einangrun. 

Lengst sat Sævar Ciesielski í gæsluvarðhaldi eða í rúmlega fjögur ár. Þar af var honum haldið í einangrun í 615 daga. Sævar hlaut einnig þyngsta fangelsisdóminn: Ævilangt fangelsi í sakadómi sem stytt var í 17 ár í Hæstarétti. Aðrir hlutu styttri dóma, 1-16 ár. Ákært var í mörgum liðum, ekki aðeins fyrir manndráp og hylmingu heldur einnig  fyrir fíkniefnabrot o.fl.

Fólkið var á aldrinum 20-32 ára þegar það var fyrst handtekið vegna gruns um aðild að mannshvörfunum tveimur sem áttu sér stað árið 1974. Tveir eru látnir, Sævar og Tryggvi Rúnar Leifsson.

mbl

Þess má geta að varðhaldið var að hluta til í einhverjum tilvikum vegna annarra óskyldra mála, s.s. „Póstsvikamálsins“ sem hluti sakborninganna var í haldi vegna er rannsóknin hófst. Allur tíminn í gæsluvarðhaldinu var hins vegar dreginn frá afplánun þeirra síðar.

Í dag mun endurupptökunefnd birta niðurstöðu sína um hvort taka eigi Guðmundar- og Geirfinnsmálin upp að nýju eins og starfshópur innanríkisráðherra taldi árið 2013 „veigamiklar ástæður fyrir“ og settur ríkissaksóknari í málinu, Davíð Þór Björgvinsson, mælti með að yrði gert. Í frétt RÚV er haft eftir dóttur Tryggva Rúnars að hans mál verði endurupptekið. Þá hefur fréttastofan heimildir fyrir því að nefndin mæli einnig með endurupptöku á máli Sævars.

Í skýrslu starfshópsins var birt mat á áreiðan­leika framb­urða og játn­inga sex­menn­ing­anna sem voru vitni eða sak­felld­ir í þess­um tveim­ur mál­um: Erlu Bolla­dótt­ur í báðum mál­un­um, Al­berts Kla­hn Skafta­son­ar í Guðmund­ar­mál­inu, Sæv­ars Ciesi­elski í báðum mál­un­um, Kristjáns Viðars Viðars­son­ar í báðum mál­un­um, Tryggva Rún­ars í Guðmund­ar­mál­inu og Guðjóns Skarp­héðins­son­ar í Geirfinns­mál­inu. 

Matið var unnið af Gísla H. Guðjóns­syni pró­fess­or og Jóni Friðriki Sig­urðssyni pró­fess­or og yf­ir­sál­fræðingi.

Mikil hætta á spilliáhrifum

Í því kemur fram að á meðan gæsluvarðhaldi og tilheyrandi einangrun stóð voru sexmenningarnir yfirheyrðir mjög oft, rætt var við þá óformlega og stundum í klefa þeirra, og stundum mjög lengi í einu og jafnvel að næturlagi, án þess að teknar væru af þeim formlegar skýrslur. Þá voru þeir ítrekað teknir í vettvangsferðir, m.a. í leit að meintum líkum þeirra Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar.

Í skýrslunni segir að niðurstöður rannsókna sýni að þessi vinnubrögð rannsakenda auka mjög hættu á að sakborningar játi aðild að málum sem þeir hafa hvergi komið nærri og hafa enga þekkingu á. 

mbl

Þá voru sakborningar, tveir til þrír saman í einu, oft teknir í svokallaðar „samprófanir“ þar sem farið var yfir framburði þeirra og borið undir þá atriði úr framburðum hvers annars. Var það bæði gert í fangelsinu og fyrir dómi. Sem dæmi var Sævar tuttugu sinnum tekinn í slíka samprófun og 27 sinnum var farið með hann út úr fangelsinu í ýmsum erindum.

Prófessorarnir Gísli og Jón Friðrik segja greinilegt að í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum var hætta á spilliáhrifum „geysilega mikil“ vegna þess hve oft var rætt við sakborningana og hve mikil áhersla var lögð á að samræma framburði þeirra. „Svona spilliáhrif eru líkleg til að hafa keðjuverkandi áhrif gegnum allt réttarkerfið, eða allt frá yfirheyrslum til sakfellingar.“

Út frá sinni reynslu og þekkingu segja þeir einsdæmi að sjá svo margar yfirheyrslur í manndrápsmálum og það sama megi segja um lengd gæsluvarðhaldsvistarinnar. „Þetta vekur upp spurningar um eðli rannsóknarinnar, þar sem áherslan virðist hafa verið á að samræma frásagnir fólks um eitthvað sem það vissi sennilega ekkert um, og niðurstöðuna um hvað varð í raun og veru um þessa tvo menn.“

Við þessar aðstæður, sem gerðu hættu á spilliáhrifum og óáreiðanlegum framburði mjög mikla, játaði fólkið sakir sem á það voru bornar, en dró þær játningar til baka á síðari stigum málsins.

Kynferðisbrot og harðræði

Að auki sögðust sakborningar hafa verið beittir harðræði í varðhaldinu, m.a. verið settir í fóta- og handajárn, vaktir á ýmsum tímum sólarhringsins og kaffærðir í vatni.

Í skýrslu vegna rannsóknar á harðræði gegn Sævari árið 1979 kom fram að fangavörður sagði að hann „mætti ekki fara á klósettið nema nakinn“ og annar fangavörður hefði gert sér að leik að framkalla mikinn hávaða á ganginum fyrir framan klefa hans. Hann hefði „tuskað“ Sævar til „þannig að hann hafði endaskipti á honum, hristi Sævar til og varnaði honum að hafa ábreiðu (prjónahúfu) yfir ljósakúflinum í loftinu, en slökkvarinn hafði þá löngu áður verið gerður óvirkur þannig að ávallt logaði ljós í klefanum“.

Í skýrslunni kemur einnig fram að fangavörður hafi gert rofann óvirkan. 

Þá hefur Erla Bolladóttir, eina konan í hópnum, lýst kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem hún varð fyrir á meðan gæsluvarðhaldinu stóð.

Sævar „æstur“ og sleginn utanundir

Jón Bjarman fangaprestur lýsti áhyggjum sínum af harðræði í Síðumúlafangelsinu í tveimur bréfum til dómsmálaráðherra á meðan á rannsókn málanna stóð. Hafði hann m.a. eftir sakborningum að þeir hefðu verið löðrungaðir, rifið hafi verið í hár þeirra og þeim ógnað. 

Við rannsókn á þessum ásökunum árið 1979 neituðu fangaverðir og rannsakendur því alfarið að frásagnir sakborninga væru réttar. Í dómi Hæstaréttar um málið er þó tekin afstaða til einnar kvörtunar Sævars: „Af gögnum máls verður ráðið, að við samprófun hinna ákærðu Sævars, Kristjáns og Erlu 5. maí 1976 hafi nafngreindur fangavörður lostið ákærða Sævar kinnhest. Um aðdraganda þessa eru skýrslur óljósar, en þær benda til þess, að ákærði Sævar hafi verið æstur og órór við yfirheyrslu þessa.

„Þegar hin rækilega rannsókn bæði fyrir og eftir uppsögu héraðsdóms varðandi meint harðræði og ólögmæta rannsóknarhætti er virt, verður ekki séð, að játningar ákærðu hafi verið fengnar með ólögmætum aðferðum af hálfu þeirra, er fóru með rannsókn málsins. Kinnhestur sá, sem sannað er, að fangavörður hafi lostið ákærða Sævar, var greiddur honum 5. maí 1976 við samprófun, alllöngu eftir að þessi ákærði játaði atferli sitt að Hamarsbraut 11. [...] Það er ámælisvert, að fangavörður laust einn hinna ákærðu kinnhest við yfirheyrslu, en ráðið verður af gögnum máls, að framkoma fangans við rannsóknarmenn í umrætt skipti hafi verið vítaverð.“

Ruglástand í langri einangrun

Í þeim kafla í skýrslu starfshópsins þar sem mat er lagt á áreiðanleika framburða og játninga sakborninganna segir að vitað sé að löng einangrunarvist geti haft alvarleg áhrif á hugsun fólks og líðan. Þekkt einkenni séu óróleiki, ruglástand, einbeitingarerfiðleikar, óskýr hugsun, brenglað raunveruleikaskyn og svefntruflanir. „Rannsóknir sýna einnig að langar yfirheyrslur leiða oft til þess að fólk gefur falskar játningar.“

Tryggvi Rúnar sætti einangrun lengst eða í 655 daga. Sævar var í einangrun í 615 daga,  Kristján Viðar í 503 daga og Guðjón í 412.

  Allir sex sakborningarnir neituðu aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálunum þegar þeir voru yfirheyrðir í upphafi, en við frekari yfirheyrslur fóru þeir að játa þó þær játningar allar hafi verið dregnar til baka síðar.

Rannsóknir sýna að sakborningar breyta framburði sínum einkum af tveimur megin ástæðum, annars vegar, þegar lögregla færir fram áþreifanleg sönnunargögn um aðild sakbornings að máli og þeir sjá því ekki tilgang í að neita lengur. Hins vegar, þvinganir við yfirheyrslur og hótanir um gæsluvarðhald, sem eru oft mjög sterkar ástæður í málum þar sem falskar játningar hafa verið staðfestar, segir í skýrslu starfshóps innanríkisráðherra.

Taldi sitt hlutverk að samræma framburði

Þá er það skoðun skýrsluhöfunda að þýski rannsóknarlögreglumaðurinn Karl Schütz, sem fenginn var að rannsókninni um tíma, hafi greinilega litið á sakborningana sem seka og sitt hlutverk að samræma framburð þeirra en eftir margar, langar og strangar yfirheyrslur og samprófanir var enn stöðugt ósamræmi á milli framburða sakborninganna.

Einnig telja skýrsluhöfundar greinilegt að Schütz hafi litið á ósamræmið sem tilraunir sakborninganna til flækja málin og hann því ekki mark á þeim þegar þau drógu framburð sinn til baka. „Þegar litið er á hvernig staðið var að gæsluvarðhaldi sakborninganna í þessum tveimur málum er greinilegt að það hefur verið mjög erfitt fyrir þau að draga framburð sinn til baka við yfirheyrslur hjá lögreglu eða fyrir dómi og þegar þau drógu til baka var hvorki tekið mark á þeim hjá rannsakendum né fyrir dómi.“

mbl

Trúðu aðeins á sekt þeirra

Skýrsluhöfundar sögðu það „mjög áberandi“ við framburði sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum hversu mikið ósamræmi var á milli þeirra og hversu oft og mikið þeir breyttu framburði sínum. Þá sé engu líkara en að rannsakendurnir hafi ekki litið á aðra möguleika en sekt sakborninganna.

„Mun líklegra er að ósamræmið hafi stafað af þekkingarleysi sakborninganna á málunum og að þeir hafi hvergi komið þar nálægt. Í þessum tveimur málum tókst aldrei að staðfesta brotavettvang, þ.e. sönnunargögn um að Guðmundur og Geirfinnur hefðu verið myrtir, og að ef þeir hefðu verið myrti að sakborningarnir hefðu komið nálægt því. Þetta er mikilvægt þegar málin eru skoðuð því enginn af sakborningunum sex reyndist geta gefið áreiðanlegar upplýsingar um þessa tvo menn sem taldir voru myrtir og enginn þeirra gátu gefið upplýsingar um hvar hin meintu lík væru niðurkomin. Líkin hafa aldrei fundist. Niðurstaðan í málunum tveimur leiddi ekki í ljós hvað gerðist því ekki hefur komið fram hvað raunverulega kom fyrir mennina tvo, Guðmund og Geirfinn.

Ósamræmið á milli sakborninganna í þessum tveimur málum, sem voru stöðugt að breyta framburði sínum, og skortur á áþreifanlegum staðfestingum, s.s. að aldrei var unnt að finna út hvar lík mannanna tveggja eru niðurkomin, styrkir mat höfunda þessa kafla á því að framburðir sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum voru fullkomlega óáreiðanlegir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert