Styttist í lokun vega

Snjór og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka, hálkublettir og snjóþekja er á flestum leiðum á Suðurlandi. Snjóþekja er á Reykjanesbraut og  hálkublettir eru á flestum leiðum á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Hellisheiðinni verður væntanlega lokað fyrir umferð klukkan 9. 

Fyrirhugaðar lokanir í dag:

09:00 – 18.00 Eyjaföll og Hellisheiði.

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut.

12:00 – 18:00 Kjalarnes og Hafnarfjall.

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekku.

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

Hálka eða snjóþekja er á Vesturlandi en snjóþekja er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir á flestum leiðum og sumstaðar snjóþekja. Snjóþekja, hálka og éljagangur er á fjallvegum á sunnanverðum Vestfjörðum. Ófært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.

Hálka, hálkublettir, snjóþekja, og éljagangur er á Norðurlandi og sumstaðar snjókoma og jafnvel skafrenningur. Ófært er á Hólasandi en hálka og skafrenningur er á Dettifossvegi.

Á  Austurlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur á flestum leiðum og víða skafrenningur. Þungfært er um Fjarðarheiði, Fagradal og Oddskarð. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi. 

Hálka eða snjóþekja er á með Suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert