Berst fyrir sjálfbærum tískuheimi

Edda Hamar á m.a. tískusýningarfyrirtækið Undress Runways.
Edda Hamar á m.a. tískusýningarfyrirtækið Undress Runways. mbl.is/Árni Sæberg

Edda Hamar á tískusýningarfyrirtækið Undress Runways, fatamerkið VIHN og gefur út tímaritið Naked, allt með það að markmiði að fagna sjálfbærni í tísku; beina athyglinni á þá jákvæðu þróun sem er að eiga sér stað í tískuheiminum og um leið fræða fólk um það sem er að gerast á bak við tjöldin.

Edda Hamar var fimm ára þegar hún fór í heimsreisu með móður sinni sem endaði á því að þær settust að í Ástralíu, þar sem þær hafa búið síðan. Þar lærði Edda viðskiptafræði og stofnaði tískusýningarfyrirtækið Undress Runways, þar sem hún leggur sitt af mörkum til að auka sjálfbærni innan tískuheimsins og vekja fólk til umhugsunar um siðferði í fataframleiðslu.

Fyrir starf sitt var Edda á síðasta ári valin „UN Young Leader for the Sustainable Development Goal“ hjá Sameinuðu þjóðunum, en sautján ungmenni voru valin alls staðar að úr heiminum úr hópi 18.000 umsækjenda.

Edda leggur tískusýningarfólkinu sínu línurnar fyrir Undress Runways í fyrra.
Edda leggur tískusýningarfólkinu sínu línurnar fyrir Undress Runways í fyrra. Ljósmynd/Andy Loke

„Ég fór til New York í september og við hittumst öll. Það voru ýmsir viðburðir tengdir allsherjarþinginu sem við höfðum tækifæri til að taka þátt í, við hittum starfsfólkið og við lærðum allt um sjálfbærni-markmið SÞ,“ útskýrir Edda.

„Þetta er í fyrsta skipt sem þessir ungu leiðtogar eru valdir, og SÞ vilja styrkja okkur í því sem við erum nú þegar að gera auk þess að okkur er boðið að segja frá starfsemi okkar víða um heim,“ segir Edda sem þegar hefur verið fulltrúi SÞ í Sádi-Arabíu.

Önnur gildi og forgangsröðun

„Þegar ég var að ljúka viðskiptafræðinni langaði mig að gera eitt verkefni, áður en ég kláraði skólann, um eitthvað sem ég vissi ekkert um, því mér finnst mjög gaman að kasta mér út í óvissuverkefni. Mér datt í hug að halda annað hvort tískusýningu eða viðburð í sambandi við póló hestaíþróttina, en ég hafði ekki hundsvit á hvorugu. Síðan valdi ég tískusýninguna af því að ég átti nokkra vini sem þekktu til í þeim heimi.

Þegar ég byrjaði að halda tískusýningar fannst mér ég alls ekki geta tengt við tískuheiminn eins og hann var. Hann var ekki í samræmi við mín gildi. Ég var ekki með neina reynslu úr tískuheiminum, ekki menntunarlegan bakgrunn heldur, og þegar ég kom inn í þennan heim spurði ég mig hvaða heimur þetta væri eiginlega þar sem forgangsröðin var allt önnur en í öðrum fyrirtækjum.“

Edda ásamt Ahmad Alhendawi, sendimanni unga fólksins fyrir aðalritara Sameiðnuðu …
Edda ásamt Ahmad Alhendawi, sendimanni unga fólksins fyrir aðalritara Sameiðnuðu þjóðanna, þegar Edda var valin í hóp ungra leiðtoga sjálfbærnimarkmiða alþjóðasamtakanna.

Árið 2011 stofnaði Edda tískusýningarfyrirtækið sitt Undress Runways sem hélt tólftu tískusýninguna sína í október sl.

„Við erum að fagna sjálfbærni í tísku. Við viljum beina athyglinni á alla þá jákvæðu þróun sem er að eiga sér stað í tískuheiminum. Þetta er frábær iðnaður sem veitir fólki mikla gleði, og það hefur alltaf verið frábær stemning á sýningunum okkar. Mig langar að nota alla þessa jákvæðu orku sem tíska skapar til að leiða í ljós það sem er að gerast bak við tjöldin í tískuheiminum; fræða fólk um sjálfbærni, um siðferði og barnaþrælkun; segja fólki sögur um hvað er í alvörunni að gerast.“

Framtíð tískunnar

Edda býr í borginn Brisbane og fljótt var hún farin að ferðast með tískusýninguna til fleiri borga.

„Á seinasta ári var þema sýningarinnar hvernig tæknin mun hafa áhrif á tískuna í framtíðinni, svo í staðinn fyrir að fara á fleiri staði héldum við eina rosalega flotta tískusýningu í Brisbane og það var „live streaming“ svo að fólk alls staðar gæti séð hana, og til að ná nýjum áhorfendum. Það var líka hægt að prófa Tesla-bíl, skoða líf í sýndarveruleika, drónar svifu yfir tískusýningarpöllunum og svo var sýnd tískutækni; föt með sólarrafhlöðum þannig að fólk geti hlaðið símann sinn á þeim. Sýningin snérist öll um framtíð tískunnar.“

Edda segir að það sé mikil aðsókn í að fá að vera með í Undress Runways og að á einni sýningunni hafi þau verið með allt að fjörutíu hönnuði, en að það hafi verið of mikið. „Í fyrra vorum við með tuttugu og þrjá hönnuði og vildum frekar leyfa hverjum og einum að njóta sín betur, vera lengur á pöllunum og hlúa að hverju atriði. Hönnuðurnir breytast frá ári til árs en það eru nokkrir hönnuðir sem hafa verið með okkur frá upphafi.“

Glæsilegur síðkjóll eftir hönnuðinn Moreno Marcos.
Glæsilegur síðkjóll eftir hönnuðinn Moreno Marcos. Ljósmynd/Alex Perry

Edda segir að þetta sé allskonar klæðnaður, jafnvel náttföt og vinnuföt, og að 90% hönnuðanna séu ástralskir. „Einn hönnuður frá Kaliforníu hefur sýnt sundföt hjá okkur í fjögur ár, svo höfum við verið með nokkra evrópska hönnuði líka.“

Hvað með íslenska hönnuði?

„Það væri frábært ef fyrirtækið Aftur gæti sýnt hjá okkur. Alltaf þegar ég kem til Íslands fer ég og skoða það sem þær eru að gera.“

Ótal möguleikar í sjálfbærni

Hvað gerir tískufatnaðinn sjálfbæran?

 „Í Ástralíu er faggildingareftirlit sem heitir „Ethical Clothing Australia“. Stimpill frá þeim þýðir að fötin eru unnin í Ástralíu við mannsæmandi vinnuaðstæður. Við viljum kynna fatnað frá framleiðendum sem hafa þennan stimpil. En við viljum líka sýna föt frá framleiðendum sem nota ýmsa aðra sjálfbæra tækni við framleiðslu; allt sem snýr að ferlinu frá því að fræi er sáð, plöntur verða að efni og þangað til fötin hafa verið notuð og endurnýtt. Við athugum hvort notað sé minna af skaðlegum efnum við framleiðsluna, og hvort bambus eða hampur er notaður, en þeir eru mjög vistvænir. Sumum tekst að lágmarka sóunina, þá er afgangsefnið tætt niður og breytt í pappír. Svo skoðum við litunina; hvort efnið er litað með grænmetislit eða skaðlegum litarefnum, og athugum líka hversu mikið vatn er notað við framleiðsluna og litunina. Svo er auðvitað hvort framleiðslan fylgir siðrænum viðmiðunum; hvort þetta sem handgert í Ástralíu eða í verksmiðjum og á verkstæðum í öðrum löndum sem standast þessi viðmið. Ef fötin eru framleidd á staðnum þýðir það að minna kolefni er notað því það eru engir flutningar. Við viljum sýna eitthvað af öllu þessu á Undress Runways, til að sýna hversu umfangsmikið verkefni sjálfbærniþróun er og hversu margir möguleikarnir eru.“

Naked tímaritinu er farið yfir alla þá þætti sem breyta …
Naked tímaritinu er farið yfir alla þá þætti sem breyta þarf til að gera tískuheiminn sjálfbæran í framtíðinni. Ljósmynd/Josiah Hayton
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert