Einangrunarvist hræðileg afplánun

Skipverjinn var upphaflega úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi 19. janúar. …
Skipverjinn var upphaflega úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi 19. janúar. Það hefur verið framlengt í tvígang. mbl.is/Golli

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi grænlenska skipverjans sem grunaður er um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana, segist ekki hafa séð nein rök fyrir því að halda manninum í einangrun vikum saman. Hann telur að of mikið sé um einangrunarúrskurði.

Páll segir að einangrunarvist sé hræðileg afplánun.

Ummælin lét Páll falla í útvarpsþættinum Vikulokin á Rás 1, að því er fram kemur á vef Rúv.

Í þættinum var rætt um niðurstöðu endurupptökunefndar sem heimilaði í gær að mál fimm sakfelldra einstaklinga úr Guðmundar- og Geirfinnsmálinu yrðu tekin upp á ný fyrir dómstólum. 

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við Morgunblaðið í vikunni, að það væri markmið lögreglunnar að ljúka við rannsókn í máli Birnu Brjánsdóttur á innan við þremur vikum. Lögreglan væri enn þá að bíða eftir því að fá fleiri niðurstöður úr lífsýnum erlendis frá en þeirra má vænta á næstu dögum. Maðurinn sem grunaður er um að hafa valdið dauða Birnu situr enn í gæsluvarðhaldi en hann var síðast yfirheyrður í síðustu viku. Hann hefur alls verið rúmar fimm vikur í haldi. 

Í Vikulokunum sagði Páll enn fremur, að það yrði að leggja þá kröfu á herðar rannsakenda sakamála að sýna fram á að skilyrði fyrir einangrun séu uppfyllt, svo sem að viðkomandi gæti spillt gögnum eða haft áhrif á samseka. Ella eigi ekki að úrskurða fólk í einangrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert