„Ekki stoppa og ekki gefast upp“

Brynjar Karl Birgisson við Titanic-líkan sitt á sýningu í Noregi …
Brynjar Karl Birgisson við Titanic-líkan sitt á sýningu í Noregi fyrir tveimur árum.

„Ekki stoppa og ekki gefast upp,“ segir Brynjar Karl Birgisson legómeistari um Tit­anic-lík­an sitt sem brotnaði og hann hyggst endurbyggja. Hann hlakkar til að byggja það að nýju fyr­ir fram­an sýn­ing­ar­gesti í Hamborg á sýningunni Float­ing Bricks 18. til 19. mars næstkomandi. Verið var að flytja skipið á Titanic-safnið í Bran­son í Banda­ríkj­un­um þegar það brotnaði

Skemmtilegt að sjá fólk fylgjast með

Þegar for­svars­menn sýn­ing­ar­inn­ar fréttu af því að líkanið hafi brotnað óskuðu þeir eftir því að hann endurbyggði það fyrir framan sýningargesti. „Ég hlakka mjög, mjög mikið til,“ segir hann spurður hvort hann hlakki til. Hann bætir við: „Það verður skemmtilegt að sjá fólk meðan ég verð að byggja. Þá get ég heilsað því.“ 

Fram­hliðin á sex og hálfs metra líkaninu brotnaði og því verður að endurbyggja það. Það verður endurbætt og styrkt að innan og verður því enn betra, að sögn Brynjars Karls. Hann viðurkennir að hann sé örlítið kvíðinn yfir skemmdunum en sérstaklega vegna þess að hann hefur ekki séð þær með eigin augum heldur einungis myndir af því. Skipið er nú í Noregi.

Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt.
Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt. mbl.is/Árni Sæberg

„Skrýtið en líka svolítið fyndið“

Afi hans, Lúðvík B. Ögmundsson, útbjó sérstakar teikningar fyrir Brynjar þannig að hann gæti smíðað skipið úr kubbum. Hann er að finna nýjar teikningar með endurbótum svo hægt sé að styrkja skipið. Hann er nú í Noregi til að reyna að tryggja að skipið verði ekki fyrir frekari skemmdum á leiðinni til Þýskalands. 

Skipið var á leið yfir Atlantshafið og brotnaði á svipuðum stað og hið raunverulega Titanic. „Mér finnst það mjög skrýtið. Skrýtið en líka svolítið fyndið,“ segir hann og bætir við: „Ég vil ekki vera of leiður því það er verra fyrir mann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert