Guðjón Skarphéðinsson: Hætti að treysta eigin minni

Guðjón Skarphéðinsson skoðar úrskurði endurupptökunefndar í gær.
Guðjón Skarphéðinsson skoðar úrskurði endurupptökunefndar í gær. mbl.is/Golli

Endurupptökunefnd féllst í gær á beiðni Guðjóns Skarphéðinssonar um endurupptöku á dómi hans í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Guðjón var dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir að hafa, ásamt öðrum, orðið Geirfinni Einarssyni að bana í dráttarbrautinni í Keflavík aðfaranótt 20. nóvember 1974.

Guðjón var einnig dæmdur fyrir fíkniefnasmygl en ekki var óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar hvað það varðar.

Endurupptökunefnd segist m.a. í úrskurði sínum telja raunhæfan möguleika á því, að þær rannsóknaraðferðir, sem beitt var undir stjórn Karls Schütz, eftir að rannsóknin beindist að Guðjóni, og aðrir dómfelldu höfðu borið um aðild hans að málinu, hafi átt þátt í því að hann hætti að treysta eigin minni og játaði aðild að atlögu að Geirfinni.

Telur endurupptökunefnd að í mörgum atriðum hafi vantað upp á að Guðjón nyti þess margvíslega vafa, sem uppi var um málsatvik og að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Því sé fullnægt skilyrðum endurupptökuheimilda í lögum um meðferð sakamála. Veitir endurupptökunefnd því leyfi á grundvelli sömu laga til að þessi þáttur málsins verði tekinn til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Hæstarétti.

Þá telur nefndin þóknun Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, talsmanns Guðjóns, hæfilega ákveðna 6.138.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og greiðist þóknunin úr ríkissjóði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert