Slæm færð víða í nótt

Færð á vegum víða um land verður slæm í nótt …
Færð á vegum víða um land verður slæm í nótt og á morgun. mbl.is/Rax

„Það er bara algjört vetrarveður, vetrarríki,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hvassviðri og snjókoma verður í nótt sunnan og vestan til og snjóar fram á morgun. Þá vekur Vegagerðin athygli vegfarenda á því að færð kunni að versna þegar þjónustutíma lýkur í kvöld og hálka er víða á vegum sunnan og vestan til.

Á morgun léttir til sunnan- og vestanlands en þá hvessir og snjóar fyrir norðan og austan. „Það lagast á morgun hérna sunnan- og vestanlands en hvessir og verður stormur víða norðan- og austanlands og snjókoma og skafrenningur þar fram á kvöld,“ segir Þorsteinn.

„Veturinn er að koma núna og það er útlit fyrir frekar kalt og kólnandi veður eftir helgi en það verður kannski ekki mikil úrkoma.“ Mikilvægt sé því að fylgjast vel með færð og ástandi vega að sögn Þorsteins.

Mikilvægt að fylgjast með færð

Þá vekur Vegagerðin jafnframt athygli vegfarenda á því að sunnan- og suðvestanlands muni snjóa talsvert seint í kvöld og í nótt.

„Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum verður hægur vindur, en hvassara og skafrenningur fyrir austan fjall og eins í Borgarfirði. Með ströndinni austur á Austfirði mun setja niður talsverðan krapa eða bleytusnjó. Norðaustan- og austanlands hvessir og fýkur í skafla.  Af þessum sökum er hætt við því að færð teppist fljótlega eftir að þjónustutíma lýkur í kvöld,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá er hálka á vegum bæði á Hellisheiði og í Þrengslum en hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðurlandi. Þá er hálka, hálkublettir og snjóþekja á vegum á Vesturlandi og skafrenningur sums staðar á Vestfjörðum auk snjóþekju eða hálku. Á vestanverðu Norðurlandi eru aðalleiðir þó víða auðar eða með hálkublettum en meiri hálka á útvegum.

Þá vekur Vegagerðin athygli á því að vegna vinnu í Múlagöngum dagana 26. febrúar til 2. mars megi reikna með umferðartöfum þar frá klukkan 21 til 6 að morgni. Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar og um veðurhorfur á landinu næstu daga á heimasíðu Veðurstofu Íslands.

Veðurvefur mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert