Albert Klahn Skaftason: Sönnunargögn líklega rangt metin

Skýrsla starfshóps innanríkisráðherra um Guðmundar-og Geirfinnsmálin kom út árið 2013. …
Skýrsla starfshóps innanríkisráðherra um Guðmundar-og Geirfinnsmálin kom út árið 2013. Í henni kom fram að framburðir allra sakborninganna hefðu verið óáreiðanlegir. mbl.is/Rósa Braga

Endurupptökunefnd féllst í gær á beiðni Alberts Klahns Skaftasonar um endurupptöku á fangelsisdómi, sem hann hlaut árið 1980.

Albert var dæmdur í 12 mánaða fangelsi en hann var sakfelldur fyrir að hafa leitast við að afmá ummerki brots annarra sakborninga, sem voru talin hafa valdið dauða Guðmundar Einarssonar í janúar 1974. Albert var einnig dæmdur fyrir fíkniefnabrot en ekki var óskað endurupptöku dómsins vegna þeirra mála.

Í úrskurði endurupptökunefndar segir m.a. að leiddar hafi verið að því verulegar líkur að sönnunarmat í málinu hafi ekki verið í samræmi við þá meginreglu opinbers réttarfars, sem fram kom í lögum um meðferð opinberra mála á þessum tíma, að dómari meti hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé komin fram um hvert það atriði sem varði sekt ákærða.

Telur nefndin að samanburður og heildarmat á nýjum gögnum og upplýsingum, þar á meðal um málsmeðferð við rannsókn og dómsmeðferð, og þeim gögnum sem lágu fyrir Hæstarétti, hafi varpað nýju ljósi á svo mörg atriði í sönnunarmati hvað varðar meint brot Alberts, að telja verði að hin nýju gögn hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins hvað Albert varðar ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Telur endurupptökunefnd að í mjög mörgum atriðum hafi vantað upp á að Albert nyti þess margvíslega vafa sem uppi var um málsatvik og að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Nefndin taldi þóknun Guðjóns Ólafs Jónssonar, hæstaréttarlögmanns og talsmanns Alberts, hæfilega ákveðna 6.138.000 krónur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert